Ferðamálaráðstefnan 2002 verður í Stykkishólmi
Nú er komin dagsetning á hina árlegu ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands en hún verður að þessu sinni haldin í Stykkishólmi dagana 17. og 18. október næstkomandi.
Á ferðamálaráðstefnum er kafað ofan í ýmis mál sem skipta miklu fyrir íslenska ferðaþjónustu og leitast við að ræða það sem efst er á baugi í umræðunni í það og það skiptið. Eins og jafnan áður verður eitt tiltekið mál tekið sérstaklega til umfjöllunar og megin umræðuefnið í ár verður þróun og framtíð einstakra landssvæða í ferðaþjónustu á Íslandi. Að öðru leyti verður dagskráin auglýst síðar en þess má þó geta undanfarin ár hafa umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs verið afhent í tengslum við ráðstefnuna.
Ráðstefnan í Stykkishólmi verður sú 32. í röðinni en síðasta ferðamálaráðstefnan var haldin á Hvolsvelli dagana 18. og 19. október síðastliðinn. Hún var jafnframt sú fjölmennasta sem haldin hefur verið til þessa en hana sóttu rúmlega 200 manns hvaðanæva af landinu. Má búast við að gestir verði ekki færri í ár enda er hér kjörinn vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til að hittast og stilla saman strengi sína. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu og mikilvægi hennar fyrir ferðaþjónustuna lýsir sér á fleiri en einn hátt. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða enda eru mýmörg dæmi um að ráðstefnan hefur orðið upphaf frekara samstarfs. Ráðstefnan er jafnan haldin utan suðvesturhornsins og hafa heimamenn í hvert sinn jafnframt getað notað tækifærið til að kynna svæði sitt.
Myndatexti: Árleg ferðamálaráðstefna Ferðamálaráðs Íslands verður að þessu sinni haldin í Stykkishólmi dagana 17. og 18. október nk. Heimasíða Stykkishólmsbæjar.