Ferðamenn þriðjungi fleiri fyrsta ársþriðjunginn
Um 45 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í nýliðnum aprílmánuði eða 8 þúsund fleiri en í apríl 2012. Um er að ræða 21,5% aukningu milli ára.
Að jafnaði 9,4% aukning milli ára
Þegar litið er til fjölda ferðamanna í aprílmánuði á tólf ára tímabili (2002-2013) má sjá að jafnaði 9,4% aukningu milli ára frá árinu 2002. Miklar sveiflur eru hins vegar í fjöldatölum milli ára. Ferðamönnum hefur fjölgað úr 19 þúsundum í um 45 þúsund í apríl frá árinu 2002, sem er meira en tvöföldun.
Bretar fjórðungur ferðamanna
Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í apríl frá Bretlandi (25,1%). Ferðamenn frá Bandaríkjunum (13,1%), Noregi (9,2%), Þýskalandi (6,1%), Danmörku (6,0%) og Svíþjóð (5,8%). Samtals voru þessar sex þjóðir 65,3% ferðamanna í apríl.
Af einstaka þjóðum fjölgaði Bretum og Bandaríkjamönnum mest milli ára í apríl. Þannig komu 3.053 fleiri Bretar en í fyrra og 1.540 fleiri Bandaríkjamenn.
Veruleg aukning frá Bretlandi, N-Ameríku og löndum sem flokkast undir annað
Þegar litið er til einstakra markaðssvæða má sjá 36,2% aukningu frá Bretlandi, 31,9% aukningu frá N-Ameríku og 36,9% frá löndum sem eru flokkuð undir ,,annað“. Norðurlandabúum og Mið- og S-Evrópubúum fjölgar hins vegar í mun minna mæli.
Ferðamenn frá áramótum
Frá áramótum hafa 167.902 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 42 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 34% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum; Bretum hefur fjölgað um 51,2%, N-Ameríkönum um 39,8%, ferðamönnum frá Mið- og S-Evrópu um 28,8% og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 40,9%. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minna eða um 7,8%.
Ferðir Íslendinga utan
Um 28 þúsund Íslendingar fóru utan í apríl, um 800 færri en í apríl árið 2012. Frá áramótum hafa 99.554 Íslendingar farið utan, aðeins færri en árinu áður en þá fóru 100 þúsund utan.
Nánari upplýsingar
Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur/Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.
Nánari upplýsingar veitir Oddný Þóra Óladóttir, rannsóknastjóri oddny@ferdamalastofa.is