Ferðaþjónar ársins á Ströndum og Reykhólasveit
Hjónin Ásbjörn Magnússon og Valgerður Magnúsdóttir eru ferðaþjónar ársins 2007, að mati samtaka ferðaþjónustuaðila á Ströndum og Reykhólasveit. Fengu þau síðastliðinn laugardag afhenta viðurkenningu af þessu tilefni, Framfarasporið 2007.
Fram kemur á vefnum strandir.is, þaðan sem myndin hér til hliðar er einnig fengin, að þau hjón hafa staðið sig afbragðsvel í að hlúa að ferðaþjónustu á svæðinu og opnuðu á síðasta ári nýtt gisthús og glæsilegt veitingahús á Drangsnesi. Framfarasporið 2007 er eftir listakonuna Ástu Þórisdóttur sem afhenti þeim hjónum viðurkenningargripinn. Mun gripurinn væntanlega prýða veggi veitingastaðarins Malarhorns á Drangsnesi.
Samtök ferðaþjónustuaðila á Ströndum og Reykhólasveit nefnast Arnkatla 2008 og héldu þau uppskeruhátíð á veitingastaðnum Café Riis á laugardagskvöldið, í lok tveggja daga stefnumótunarfundar. Á fundinum var stefna verkefnisins mörkuð fram til ársins 2012 og innan tíðar mun liggja fyrir nokkuð nákvæmt aðgerðarplan. Vegna veðurs varð þátttaka á fundinum ekki alveg jafn góð og vonast hafði verið til en ferðaþjónustuaðilar úr Árneshreppi og Reykhólasveit áttu ekki heimangengt af þessum sökum. Engu að síður var mikill hugur í fundarmönnum en um það bil þrjátíu aðilar eiga aðild að Arnkötluverkefninu. Sævar Kristinsson rekstrarráðgjafi hjá Netspor stýrði vinnunni á fundinum.