Ferðaþjónusta á internetinu
"Internetið er að snúa hinum hefðbundnu dreifingarleiðum ferðaþjónustunnar á hvolf.
Ef einstök svæði ætla að taka þátt í byltingunni er þeim betra að haska sér".
Þetta var niðurstaða ráðstefnu sem fram fór í Madrid 27. janúar 2000 um viðskipti á internetinu og ferðaþjónustu. Þeir sem munu ná mestum árangri í notkun netsins við sölu og markaðsfærslu ferðaþjónustu eru annars vegar stórfyrirtæki, flugfélög og ferðaskrifstofur og hins vegar smáfyrirtæki sem vinna á þröngum markaðssyllum. Þegar einstakir birgjar og ferðamannastaðir taka til við markaðsfærslu á netinu mun hlutverk og ráðandi staða stórra ferðaskrifstofa minnka og bein viðskipti milli ferðamanns og birgja munu aukast. Þetta kom fram í máli ferðamálastjóra Spánar, Germán Porras, sem ræddi um breytta kauphegðun á tímum upplýsingabyltingarinnar.
"Innihald og upplýsingar skipta öllu máli" var inntak ræðu sem Gerry MacGowern frá írska fyrirtækinu NUA Internet Surveys. "Leiðin til að laða ferðamenn að svæðum með Internetinu er að gefa eins nákvæmar og ítarlegar upplýsingar og mögulegt er og svara svo öllum fyrirspurnum strax, það þýðir samdægurs. Þá verða birgjar að ná sambandi strax við mögulega kaupendur með gagnvirkum heimasíðum og þannig reyna að að laða þá til kaupa".
Þróunin er sú að ferðamenn vafra um á netinu til að leita sér upplýsinga, kaupa e.t.v einstakar einingar í smáum stíl beint af netinu, en pakkaferðir og heildarlausnir eru enn seldar af ferðaskrifstofum þar sem ferðamaður skynjar minni áhættu af því að "tala við einhvern" heldur en senda tölvuskeyti út í tómið á internetinu.
Þá má að lokum benda á bæklinginn "Marketing tourism destinations online" sem er gefinn út af WTO.
(Tekið saman úr fréttabréfi WTO Mars, 2000).