Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum 2011 komin út
30.04.2012
fors3
Í nýútgefinni talnasamantekt Ferðamálastofu, Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum 2011, má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um íslenska ferðaþjónustu. Meðal efnis má nefna niðurstöður úr nýlegum könnunum Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna og Íslendinga, auk samantekta byggða á ferðamannatalningum, gistináttatalningum og ferðaþjónustureikning Hagstofunnar.
Meðal efnis í talnasamantekt er eftirfarandi:
- Hagtölur í íslenskri ferðaþjónustu; framleiðsluvirði, hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu og gjaldeyristekjum, skattar í ferðaþjónustu, störf í ferðaþjónustu og ferðaneysla.
- Erlendir ferðamenn til Íslands eftir komustöðum.
- Farþegar með skemmtiferðaskipum eftir höfnum.
- Erlendir ferðamenn til Íslands um Keflavíkurflugvöll eftir mánuðum og árstíðum.
- Helstu þjóðernin eftir árstíðum.
- Gistinætur erlendra ferðamanna og Íslendinga.
- Erlendir ferðamenn á Íslandi sumarið 2010; bakgrunnur þeirra, hvað fékk þá til að ferðast til Íslands, hvert ferðuðust þeir, með hverjum, hvernig, hvar dvöldu þeir og hve lengi, hvaða afþreyingu greiddu þeir fyrir, hvað fannst þeim minnisstæðast við ferðina, hvar fannst þeim styrkleikar íslenskrar ferðaþjónustu einkum liggja og fannst þeim ferðin standa undir væntingum.
- Ferðalög Íslendinga árið 2011 í samanburði við ferðalög á árinu 2010; ferðuðust Íslendingar á árinu 2011 og þá hvenær, hve lengi dvöldu þeir á ferðalögum, hvar gistu þeir, hvert ferðuðust þeir og hvaða afþreyingu greiddu þeir fyrir. Hugað var að dagsferðum og þá hversu margar dagsferðir voru farnar og hvert, auk þess sem hugað var að ferðaáformum Íslendinga á árinu 2012.
Ritið í heild er aðgengilegt hér að neðan í PDF-formi. Nánari upplýsingar gefur Oddný Þóra Óladóttir, rannsóknastjóri Ferðamálastofu oddny@ferdamalastofa.is .