Ferðaþjónusta í tölum – janúar 2022
Í samantektinni Ferðaþjónusta í tölum – janúar 2022, sem kom út í gær, má sjá samantekt um brottfarartalningar erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll, skráðar gistinætur, nýtingu á hótelum og nokkrar niðurstöður er varða dvöl ferðamanna á Íslandi s.s. um tilgang ferðar, dvalarlengd, heimsóknir eftir landshlutum sem og upplifun af Íslandsferð.
Níu af hverjum tíu brottförum farnar seinni hluta ársins
Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 688 þúsund árið 2021 eða um 209 þúsund fleiri en árið 2020. Langflestar brottfarir voru farnar á seinni hluta ársins (júlí-des.) eða um 89%. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða þriðjungur. Þar á eftir komu Þjóðverjar, Bretar, Pólverjar og Frakkar.
Langflestir voru í fríi á Íslandi 2021 og var dvölin með lengsta móti
Langflestir eða um níu af hverjum tíu ferðamönnum árið 2021 voru í fríi á Íslandi samkvæmt könnun Ferðamálastofu. Um 5% voru í heimsókn hjá vinum og ættingjum og um 2% í viðskiptatengdum tilgangi. Um 3% voru í annars konar tilgangi.
Breytt ferðamynstur vegna kórónuveirufaraldursins leiddi af sér lengri dvalarlengd erlendra ferðamanna hérlendis á síðasta ári en hefur tíðkast síðustu ár eða 8,2 nætur að jafnaði. Til samanburðar var meðaldvalarlengdin rétt innan við sjö nætur 2020 og 2019.
Bandaríkjamenn sem vega þyngst vegna hárrar hlutdeildar dvöldu að jafnaði 7,6 nætur eða tveimur nóttum lengur en þeir gerðu 2020 og 2019. Af tíu fjölmennustu þjóðernunum voru Þjóðverjar, Spánverjar, Frakkar og Ítalir með lengstu dvalarlengdina eða um og yfir níu nætur.
Hátt NPS skor, 86 stig, gefur til kynna hversu ánægðir ferðamenn voru með Íslandsdvölina árið 2021.
Skráðum gistinóttum fjölgar um 55% milli ára 2020-2021
Skráðar gistinætur voru ríflega fimm milljónir árið 2021 samkvæmt gistináttagrunni Hagstofunnar, 1,8 milljón fleiri (55% aukning) en árið 2020 og 3,3 milljónum færri (39% fækkun) en árið 2019. Þrjár af hverjum fimm gistinóttum voru tilkomnar vegna erlendra ferðamanna. Um tveimur af hverjum fimm gistinóttum (43%) var eytt í júlí og ágúst.
Þrjár af hverjum fimm hótelgistinóttum 2021 tilkomnar vegna Íslendinga og Bandaríkjamanna
Um helmingur (48%) gistinótta í skráðri gistingu árið 2021 eða tæplega 2,5 milljón talsins voru á hótelum og fjölgaði þeim um 65% frá árinu 2020. Hótelgistinætur voru um tveimur milljónum fleiri árið 2019.
Um þriðjung hótelgistinótta (820 þús.) mátti rekja til Íslendinga og um fjórðung (640 þús.) til Bandaríkjamanna. Í þriðja til fimmta sæti voru gistinætur Breta, Þjóðverja og Frakka.
Nýting á hótelum hærri en 70% í júlí og ágúst
Nýtingin á hótelherbergjum fór niður fyrir 15% á landsvísu fyrstu fjóra mánuði ársins 2021. Nýtingin fór upp á við í júní í kjölfarið á afléttingu ferðatakmarkana og mældist hæst í ágúst (77%), júlí (70%), september (64%) og október (62%). Nýtingin fór yfir 80% á Austurlandi tvö mánuði ársins, í júlí (81%) og ágúst (82%) sem er besta nýting ársins á landsvísu.
Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum er gefin út mánaðarlega á íslensku og ensku og má nálgast undir liðnum Tölur og útgáfur.