Ferðaþjónusta vex hlutfallslega mest á Íslandi
Umfang ferðaþjónustu á Íslandi, mælt í gistinóttum á hótelum og gistiheimilum, hefur vaxið margfalt meira á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í Norrænu tölfræðihandbókinni fyrir árið 2006 sem er nýlega komin út.
Í skýrslunni er byggt á tölum frá Hagstofunni, sem sér um gistinátttalningar hérlendis. Fram kemur að á síðustu 10 árum hefur gistinóttum hérlendis fjölgað um 85% á meðan fjölginin almennt hjá frændum okkar er í kringum 20%. Grænlengingar og Færeyingar njóta þó líkt og Íslendingar talsvert meiri fjölgunar hlutfallslega. Í skýrslunni kemur einnig fram að mun hærra hlutfall gesta á hótelum og gistiheimilum hérlendis er útlendingar, samanborið við hin löndin.
?Þessar opinberu tölur staðfesta í reynd hve miklum árangri íslensk ferðaþjónusta hefur náð á erlendum mörkuðum á síðastliðnum áratug í samanburði við nágrannaþjóðir okkar,? segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri.
?Að baki þessum árangri liggur gífurleg vinna fjölda aðila í greininni sem hafa sýnt mikið frumkvæði í vöruþróun og við að koma þessari vöru á framfæri til neytenda. Á þessum árum hafa síðan stjórnvöld skapað greininni þá innviði, laga- og rekstrarumhverfi, sem hún hefur nýtt til mesta vaxtar- þróunar- og framfaraskeiðs í íslenskri ferðaþjónustu. Einnig hafa stjórnvöld komið með auknum hætti að öllu almennu kynningarstarfi á þessum árum í samvinnu við greinina, bæði með stórauknu fjármagni og með nýjum aðferðum? segir Magnús.
Myndin hér að neðan er úr Norrænu tölfræðihandbókinni sem nálgast má á vef Hagstofunnar.