Ferðaþjónustan fær aukið vægi í Árbók verslunarinnar
Gefin hefur verið út Árbók verslunarinnar 2014. Í henni eru teknar saman upplýsingar um hagræna og lýðfræðilega þróun sem snýr að verslun 2013 og árin þar á undan.
Meiri gagna aflað um ferðaþjónustu
Þetta er í áttunda árið sem Árbók verslunarinnar er gefin út í samstarfi við Kaupmannasamtök Íslands. Þó grunnurinn sé sá sami og áður hefur heldur meiri áhersla verið lögð á verslun og viðskipti sem snúa að ferðaþjónustu að þessu sinni. Ætla má að sú áherslubreyting haldi áfram, segir í inngangi, þar sem Rannsóknasetur verslunarinnar aflar sífellt meiri gagna um þróun í ferðaþjónustu.
17% raunaukning í greiðslukortaveltu
Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna árið 2013 nam 90 milljörðum króna samanborið við 74,3 milljarða árið 2012. Ef tekið er tillit til verðbólgu var raunaukning greiðslukortaveltu erlendra ferðamanna 17% á milli ára, mest í bílaleigu og veitingaþjónustu um 26% en minnst í verslun og farþegaflutningum, 11%. Vert er að taka fram að ekki fer öll velta erlendra ferðamanna í gegnum greiðslukortanotkun hjá innlendum færsluhirði.
Verslun ferðamanna vex mun meira en verslun almennt
Erlendir ferðamenn eyddu að raunvirði 11% meira í verslun í fyrra en árið áður. Umsvifin námu 16 milljörðum króna ef horft er til greiðslukortaveltu. Þeir keyptu mest í fataverslunum, einkum útivistarfatnað, og dagvöruverslunum. Til samanburðar jókst velta almennt í smásöluverslun 1,4% umfram verðbólgu og nam 359 milljörðum króna án virðisaukaskatts árið 2013.