Ferðatorg 2006 sett í dag
Sýningin Ferðatorg 2006 verður sett í Smáranum í Kópavogi í dag. Ferðatorgið er nú stærra og glæsilegra en nokkru sinni fyrr og er auk þess haldið samhliða stórsýningunni Matur 2006.
Markmið Ferðatorgs 2006 er að gefa íslenskum ferðaþjónustuaðilum og þjónustugeirum sem þeim tengjast gott tækifæri á að kynna sig og starfssemi sína til Íslendinga og gera ferðalög innanlands að spennandi valkosti og lífsstíl fyrir landann. Öll átta ferðamálasamtök landshlutanna munu kynna sinn landshluta og þjónustu ferðaþjónustuaðila á sínu svæði. Aðrir sýnendur eru fyrirtæki og/eða þjónustuaðilar sem koma að ferðaþjónustu innanlands á einn eða annan máta. Ferðatorgið er samstarfsverkefni IceXpo, Kópavogsbæjar, Ferðamálastofu, Samgönguráðuneytisins og Ferðamálasamtaka Íslands.
Ferðatorgið verður opið fyrir almenning á laugardag og sunnudag kl. 11.00-18.00 báða dagana. Ýmsar uppákomur verða á torgi Ferðatorgs sýningardagana og vinningar dregnir út á 10 mínútna fresti. Þess má geta að veglegt kynningarblað um Ferðatorg 2006 fylgir Morgunblaðinu í dag.