Fjölgun brautskráninga frá Hólaskóla
Síðastliðinn föstudag fór fram brautskráning frá Háskólanum á Hólum. Aldrei fyrr hafa jafn margir ferðamálafræðingar og viðburðarstjórnendur útskrifast frá ferðamáladeild og nú - samtals 34.
Nemendafjöldi við skólann hefur farið ört vaxandi undanfarin ár, og nú er komið að því að aukinn fjöldi innritaðra nemenda skili sér til brautskráningar. Brautskráningarathöfn hefur gjarna farið fram í Hóladómkirkju, en nú er svo komið að hún rúmar engan veginn þann fjölda nemenda, starfsmanna og gesta sem gera verður ráð fyrir. Því voru góð ráð dýr, en niðurstaðan var sú að leita í Menningarhúsið Miðgarð. Þar er reyndar alls ekki í kot vísað, þar sem því sem áður var þekkt sem Félagsheimilið og sveitaballastaðurinn Miðgarður hefur nú verið breytt í Menningarhús Skagfirðinga.
Meðfylgjandi mynd af hópnum tók Gunnar Óskarsson en fleiri myndir frá athöfninni eru á Facebook-síðu Hólaskóla.