Fara í efni

Fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands 42 þúsund á milli ára

jeppar
jeppar

Erlendum ferðamönnum hingað til lands fjölgaði um 40 þúsund manns á nýliðnu ári, miðað við árið í fyrra, sem þó var metár. Þetta er um 13% fjölgun. Samtals voru erlendis gestir um 360.400 árinu.

Ferðamenn sem fara um Keflavíkurflugvöll eru taldir á vegum Ferðamálaráðs. Þeir voru 348.533 á nýliðnu ári, samanborið við 308.700 árið 2003. Með Norrænu og um aðra millilandaflugvelli komu tæplega 12.000 gestir á árinu 2004 sem til saman gerir 360.400 gesti sem fyrr segir.

Skipting eftir þjóðerni
Í talningum Ferðamálaráðs í Leifsstöð má sjá skiptingu ferðamanna eftir þjóðerni og er fróðlegt að gera hana saman við fyrra ár. Bretar eru fjölmennastir þeirra sem hingað koma, eða ríflega 58 þúsund manns. Þeim fjölgaði einnig verulega á árinu eða um 13%. Frá N.-Ameríku komu 51.800 manns og 38.600 frá Þýskalandi. Til samans eru hins vegar Norðurlandabúar stærsti hópurinn eða ríflega 94 þúsund manns á liðnu ári og fjölgaði um 13% á milli ára.

Góður árangur á megin markaðssvæðum Íslands
Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir afar ánægjulegt að verða vitni að enn einu metárinu hjá íslenskri ferðaþjónustu hvað þennan mælikvarða varðar. "Mér finnst einnig athyglisvert að rúmlega 90% gesta eru að koma frá þeim 4 markaðssvæðum sem við höfum lagt megináherslu á, þ.e. N.-Ameríku, Skandinavíu, Mið-Evrópu og Bretlandi. Á þessi svæði hafa opinberir aðilar lagt megináherslu í landkynningu undanfarin ár og ég fæ ekki betur séð en að það sé að skila okkur verulegum árangri, samhliða aukinni markaðssókn íslenskra fyrirtækja og þróun þeirra á vöru sem fellur að væntingum markaðarins. Þá er ánægjulegt að verða vitni að verulegri aukningu frá fjarlægari mörkuðum, eins og t.d. Japan. Miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um gjaldeyristekjur má gera ráð fyrir að þessir 40þúsund ferðamenn til viðbótar á árinu 2004 hafi skilað allt að 3 milljörðum króna í auknar gjaldeyristekjur í þjóðarbúið. Þessi auknu umsvif skapa forsendur fyrir betri afkomu fyrirtækja í greininni, sem auðvitað er það sem skiptir mestu máli," segir Magnús.

 Heildarniðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs í Leifsstöð eru aðgengilegar í Excel-skjali hér á vefnum undir liðnum "Tölfræði".