Fjölgun gistinátta í öllum landshlutum
Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta á hótelum í júlí og sýna þær að gistinóttum í mánuðinum fjölgaði um 6% á milli ára. Gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum voru 189300 en voru 177800 í sama mánuði árið 2006.
Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Aukningin var hlutfallslega mest á Norðurlandi þar sem gistinóttum fjölgaði um tæp 12%, úr 19.400 í 21.700 milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin tæpum 6%, en gistinætur þar fóru úr 104.900 í 111.100 milli ára. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum einnig um 6%, úr 18.100 í 19.200. Fjöldi gistinátta á Suðurlandi jókst um rúm 5%, úr 24.200 í 25.500 milli ára. Á Austurlandi fór gistináttafjöldinn úr 11.300 í 11.800 og fjölgaði þar með um rúm 4%. Fjölgun gistinátta á hótelum í júlí má bæði rekja til Íslendinga (23%) og útlendinga (4%).
Gistirými á hótelum í júlímánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 4.076 í 4.444, sem er 9% aukning, og fjöldi rúma úr 8.210 í 9.015, sem er 10% aukning. Hótel sem opin voru í júlí síðastliðnum voru 77 en 76 í sama mánuði árið 2006. Sjá nánar á vef Hafstofunnar.