Fjölgun skráninga í Ferðaþjónustu bænda
Á þessu ári hefur áhugi bænda á að skrá sig í Ferðaþjónustu bænda aukist til muna frá fyrra ári, að því er kemur fram í nýjasta tölublaði Bændablaðsins. Aðilar allsstaðar að af landinu óska eftir inngöngu í félagið og meira ber á að bændur sem eru utan alfaraleiðar setji á fót ferðaþjónustu af einhverju tagi.
Fram kemur að á þessu ári eru að bætast við um 20 bæir inn í félagið og er sú fjölgun helmingi meiri en á fyrra ári. Heildarfjöldi bænda innan Ferðaþjónustu bænda er um 140. Svo virðist sem bændur sjái nú atvinnutækifæri í ferðaþjónustunni sem þeir sáu ekki áður, enda mikil umferð af ferðamönnum innanlands í sumar.
Sækja í gæðakerfi FB
Haft er eftir Marteini Njálssyni, formanni Félags ferðaþjónustubænda, að flestallir sem skrá sig nú hafa verið með einhverskonar ferðaþjónustu en eru að fara af stað fyrir alvöru. ?Þetta eru þá bændur sem hafa prófað sig áfram í nokkur ár en ætla nú að opna með vandaðri aðstöðu. Ferðaþjónustuaðilar eru að sækjast í að komast undir okkar merki því við erum með 30 ára gamalt viðurkennt gæðakerfi. Það er ákveðinn ferill til að komast inn í Ferðaþjónustu bænda en þó að bændur séu ekki með alla hluti tilbúna þá vinnum við að því sem upp á vantar með þeim. Það eru bændur um allt land sem eru að skrá sig en hlutfallslega mesta aukningin er á Vestfjörðum og staðir sem eru utan alfaraleiðar eru að koma meira inn en áður því þeir eiga svo sannarlega erindi inn í ferðaþjónustuna eins og aðrir,? segir Marteinn.
Myndin er frá Hunkubökkum á Síðu, sem er aðili að ferðaþjónustu bænda.