Fjölsóttur fundur Cruise Iceland
Í gær var haldinn opinn fundur á vegum samtakanna Cruise Iceland. Um 40 manns sóttu fundinn sem haldinn var í Hafnarhúsinu í Reykjavík og var tilefnið að kynna nýútkomna skýrslu á vegum Samgönguráðuneytis um móttöku skemmtiferðaskipa hér á landi.
Ágúst Ágústsson markaðsstjóri Faxaflóahafna og stjórnarformaður Cruise Iceland sagði í inngangsorðum að um 55.000 þúsund farþegar hefðu komið til landsins árið 2007 og að útlitið væri gott fyrir árið 2008. Aukning væri á skipakomum á milli ára. Að sögn hans sigla nú um 300 skemmtiferðaskip um öll heimsins höf en á næstu þremur árum munu önnur 40 bætast í hópinn. Stærsta skipið sem er í smíðum er með 5400 kojur og með áhöfn geta verið um 8.000 manns um borð. Stærstu skipin sigla í Karabíska hafinu og í Miðjarðarhafinu. Ágúst velti einnig fyrir sér framtíðarmöguleikum og sagði þá án efa talsverða fyrir okkar svæði. M.a. er unnið að því að koma á hringferðum í kringum landið, lystisnekkjur og seglskútur eru að koma hingað í auknum mæli og möguleikar væru fyrir Reykjavík að eflast sem svokölluð snúningshöfn. Þá eru höfð farþegaskipti þannig að nýir farþegar koma með flugi.
Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna og formaður nefndarinnar, tók síðan við og kynnti skýrsluna. Hann stiklaði á helstu niðurstöðum og tók því fram að árangur okkar hér væri mjög góður á heimsvísu og að nóg væru tækifærin. Eftir greinagóða kynningu var opið fyrir fyrirspurnir og tóku margir til máls. Fólki var m.a. tíðrætt um inniviði greinarinnar. Fram kom að stærstu dagarnir, með allt að5.000 manns í landi, væru augljóslega mjög erfiðir. Mikilvægt væri að efla grunnþætti eins og t.d. leiðsögufólk með réttindi, rútur og fleira. Skýrsluna í heild má nálgast undir liðnum Útgefið efni" hér á vefnum. Skoða skýrslu um móttöku skemmtiferðaskipa
Meðfylgjandi myndir tók Stefán Helgi Valsson á fundunum.