Fjölvirkjanám í ferðaþjónustu
Í nóvember hefst ný námskeiðslota í svokölluðu fjölvirkjanámi. Að þessu sinni verður áherslan á ferðaþjónustu. Frá þessu er greint á vef Samtaka ferðaþjónustunnar.
Hugmyndafræði fjölvirkjanámsins hefur vakið athygli víða og nú á vordögum þegar SAF, ásamt Starfsgreinasambandinu og öllum Símenntunarmiðstöðvum á Íslandi, komu saman til að skoða meira framboð í fræðslustarfi í ferðaþjónustu var ákveðið að þróa fjölvirkjanámið fyrir ferðaþjónustuna. SAF og Símenntunarmiðstöðvarnar hlutu styrk frá Starfsmenntaráði til þróunar námsskrár og markaðssetningar námsins.
Nú hefur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur gefið út tvær nýjar námskrár, fjallar önnur um fjölvirkja og hin um verslunarfagnám. Námið er ætlað lykilstarfsmönnum í iðnaðar-, framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum, 20 ára eða eldri, sem hafa stutta formlega skólagöngu að baki. Náminu er ætlað að auka persónulega og faglega hæfni þessara starfsmanna. Fjölvirkjanám í ferðaþjónustu verður prufukeyrt á tveimur stöðum til að byrja með hjá SímEy (Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar) og hjá Fræðsluneti Austurlands á Egilsstöðum.
Menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að meta megi fjölvirkjanámið til styttingar náms í framhaldsskóla til allt að 13 eininga. Nánari upplýsingar má finna vef SAF, vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og hjá ofangreindum símenntunarmiðstöðvum.