Fleiri njóta aðstoðar hálendisvaktarinnar
Hálendisvakt björgunarsveita var starfrækt í sjöunda sinn sumarið 2012. Sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar stóðu vaktina frá 22. júní til 24. ágúst. Alls voru þáttakendur 191 talsins og 28 björgunarsveitir tóku þátt. Staðsetning hópa var sem áður á svæðinu norðan Vatnajökuls, á Sprengisandi, á Kili og tveir hópar voru að Fjallabaki.
Veruleg fjölgun atvika
Mikil aukning var á fjölda atvika sem kom til kasta hálendisvaktar þetta sumarið en þau reyndust alls vera 1.917 sem er 59% aukning frá árinu 2011 þegar þau voru 1.204 talsins. Þessum atvikum er svo skipt upp í tvo flokka. Annarsvegar almenna aðstoð en undir hana flokkast minniháttar atvik s.s. leiðbeiningar til ferðamanna varðandi leiðaval og útbúnað svo og minniháttar bilanir og almenn aðstoð. Hinsvegar eru það útköll en undir þann flokkast atvik sem alla jafna hefðu þarfnast aðstoðar björgunarsveita úr byggð. Mikil aukning var í báðum þessum flokkum. Almennar aðstoðarbeiðnir voru 1.495 sem er aukning um 56% frá 960 aðstoðarbeiðnum ársins 2011.
Útköll reyndust vera 524 þetta sumarið en voru 244 sumarið 2011. Það er því 115% aukning enda er óhætt að segja að hálendisvaktin hafi staðið í ströngu stóran hluta sumarsins, allt frá nokkrum útköllum og aðstoðarbeiðnum upp í nokkra tugi sama daginn.
Tegund útkalla
Tæplega helmingur útkalla var bílatengdur eða 213 talsins. Útköll sem flokkast undir slys og veikindi voru um 100 eða 20% af heildarútkallsfjölda. Er það mikil aukning frá fyrri árum. Mikið var um minni slys s.s. fóta, ökkla- og handleggsáverka en einnig var töluvert um veikindi svo og voru útköll þar sem áverkar reyndust vera mjög alvarlegir. Þess má geta að á annað hundrað útköllum var sinnt af björgunarsveitum víða um land í sumar utan hálendisvaktar.
Ef horft er á hvers konar ferðamenn áttu aðild að þessum útköllum reynist stærsti flokkurinn vera göngufólk eða 29%. Ferðamenn á eigin vegum akandi á jepplingum reyndust 18% og ferðamenn á eigin vegum á jeppum litlu færri eða 17%. Aðrir flokkar voru minni en í fyrsta sinn þurfti að aðstoða ferðamenn á langferðabifreiðum svo einhverju næmi en 4% útkalla falla í þann flokk.
Í heild sinni tókst hálendisvaktin afar vel þrátt fyrir mikið annríki hjá hópum er hana stóðu. Atvik voru á öllum tíma sólarhrings og dæmi voru um að hópur sem stóð vaktina að Fjallabaki náði ekki að klára máltíð í heila viku án þess að vera sendir í verkefni.
Hálendisvakt björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefur verið efld undanfarin ár með betri búnaði, húsakosti og fjarskiptum. Það hefur verið gert með stuðningi góðra aðila. Afar brýnt er þó að sækja aukið fjármagn í hálendisvaktina svo hægt sé að mæta þeirri aukningu óhappa og slysa sem virðist fylgja mikill fjölgun ferðamanna.
Allar nánari upplýsingar veitir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna, sími 897-1757.
Hér fyrir neðan eru nokkrar ljósmyndir frá sumrinu.