Flokkun gististaða - Nýtt flokkunarviðmið og lægri kostnaður
Á síðasta fundi úrskurðarnefndar um flokkun gististaða, sem haldinn var 27. apríl sl., var nýtt flokkunarviðmið samþykkt og verða gististaðir flokkaðir eftir þessu nýja viðmiði frá og með 1. janúar 2005. Með skipulagsbreytingum tókst einnig að lækka kostnað við framkvæmdina. Hefur ný og lægri gjaldskrá þegar tekið gildi.
Breytingar með nýju flokkunarviðmiði
Af þeim 128 atriðum sem er að finna í þessu nýja viðmiði eru 30 ný eða breytt frá fyrri útgáfu. Af þessum 30 breytingum eru 18 sem eingöngu eiga við 4 og 5 stjörnu gististaði, þannig að með þessu nýja viðmiði eru kröfurnar að aukast og þá sérstaklega á hærra flokkaða gististaði. Meðal helstu breytinga sem verða er að nú verður farið að vega og meta gæði húsgagna og búnaðar en ekki eingöngu gerð krafa um að viðkomandi húsgögn eða búnaður séu til staðar. Breytingar þær sem nú hafa verið samþykktar eru hliðstæðar nýjum viðmiðum er tóku gildi í Danmörku um sl. áramót og gististaðir í Svíþjóð, Grænlandi og Færeyjum eru flokkaðir eftir.
Framkvæmdin færist til Ferðamálaráðs
Þá hefur einnig orðið sú breyting að flokkaðir gististaðir eru heimsóttir og skoðaðir af starfsmanni Ferðamálaráðs en ekki utanaðkomandi verktaka eins og verið hefur. Öldu Þrastardóttur verkefnisstjóra hjá Ferðamálaráði hefur verið falið verkefnið. Alda hefur heimsótt HORESTA í Danmörku til þjálfunar og einnig hefur hún notið krafta og reynslu Sigrúnar Jakobsdóttur hótelrekstarfræðings við að undirbúa sig. Alda er þegar byrjuð að flokka staði og að hennar sögn hefur það gengið vonum framar. Leggst þetta nýja verkefni vel í hana.
Lægri kostnaður - Ný gjaldskrá
Með þessu, ásamt öðrum skipulagsbreytingum, hefur verið hægt að lækka kostnað um 20%. Hefur ný verðskrá þegar tekið gildi og tekur hún mið af þessari kostnaðarlækkun. Ný verðskrá er svipað uppbyggð og áður, þ.e. ákveðið grunngjald og herbergjagjald. Breyting hefur verið gerð á grunngjaldinu þannig að í þrepi 1. eru gististaðir með 1-29 herbergi, var áður 1-19 herbergi, og í þrepi 2. eru gististaðir með 30 herbergi eða fleiri, var áður 20 herbergi eða fleiri.
Ný gjaldskrá tók gildi frá og með 1. maí 2004:
Þrep 1. kr. 28.000,- Gististaðir með 1 - 29 herbergi.
Þrep 2. kr. 42.000,- Gististaðir með 30 herbergi eða fleiri.
Herbergi kr. 150,-
Seinni skoðun kr. 28.000,-
Auka skilti kr. 15.000,- auk burðargjalds.
Dæmi:
Gististaður með 18 herbergi kr. 30.700,- ( 28.000 + (18 x 150))
Gististaður með 100 herbergi kr. 57.000,- ( 42.000 + (100 x 150))