Flugáætlun Icelandair 18% umfangsmeiri
Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2014 verður sú stærsta í sögu félagsins og um 18% umfangsmeiri en á þessu ári. Frá þessu er greint í frétt frá félaginu.
Þrír nýir áfangastaðir
Flug verður hafið til þriggja nýrra áfangastaða, Edmonton í Kanada, Vancouver í Kanada og Genfar í Sviss, og ferðum fjölgað til ýmissa borga í Norður-Ameríku og Evrópu. Nú síðast var ákveðið að Edmonton verði heilsáráfangstaður. Áður hafði verið gert ráð fyrir að gera hlé yfir vetrarmánuðina en í ljósi eftirspurnar, jákvæðrar markaðsþróunar og bókunarstöðu er sala hafin á ferðum allt árið.
2,3 milljónir farþega
Gert er ráð fyrir að farþegar Icelandair verði rúmlega 2,6 milljónir á árinu 2014, en eru á þessu ári um 2,3 milljónir. Alls verður 21 Boeing-757 flugvél nýtt til farþegaflugsins næsta sumar, þremur fleiri en á þessu ári.
Aukin tækifæri í Kanda
Með nýjum loftferðasamningi milli Íslands og Kanada á þessu ári opnast félaginu aukin og áhugaverð tækifæri í flugi milli landanna og tengiflugi til Evrópulanda, segir í frétt Icelandair.