Flugleiðir stefna að 7% fjölgun ferðamanna
Flugleiðir stefna að því að ferðamönnum hingað til lands fjölgi um 7% á ári. Þetta kom fram í máli Harðar Sigurgestssonar, stjórnarformanns Flugleiða, á aðalfundi félagsins í gær.
Verulegur árangur hefur sem kunnugt er náðst í að fjölga ferðamönnum til Íslands á undanförnum árum. Í töflunni hér að neðan, sem er meðal þess sem finna má hér á vefnum undir liðnum "Tölfræði", eru teknar saman tölur um fjölda ferðamanna sem koma til landsins með skipum og flugvélum frá árinu 1972. Ef t.d. eru bornar saman tölur fyrir árin 2002 og 1992 kemur í ljós að á þessu 10 ára tímabili fjölgar ferðamönnum um nær 95%, eða úr 142.600 ferðamönnum í 278.000. Jafn ljóst er að árangur sem þessi næst ekki fyrirhafnarlaust. Líkt og stjórnarformaður Flugleiða benti á í ræðu sinni í gær er Ísland að keppa við fjölda annarra áhugaverðra ferðamannastaða og væntanlega þurfi að verða framsækin þróun í greininni til að hún verði áfram samkeppnisfær.
Eins og fram kom á frétt hér á vefnum á dögunum eru flugsamgöngur við landið nú með allra besta móti. Í sumar lítur út fyrir að hér verði í ferðum þrjú flugfélög sem eru með áætlunarflug allt árið á stefnuskrá sinni og a.m.k. 5 til viðbótar sem halda upp áætlun yfir sumartímann. Þá hefur ný og stærri Norræna siglingar til landsins í vor sem væntanlega þýðir fjölgun ferðamanna sem koma til landsins sjóleiðina.
Erlendir ferðamenn sem koma til Íslands með skipum og flugvélum
1972 | 68.026 | 1988 | 128.830 |
1973 | 74.019 | 1989 | 130.503 |
1974 | 68.476 | 1990 | 141.718 |
1975 | 71.671 | 1991 | 143.459 |
1976 | 70.180 | 1992 | 142.560 |
1977 | 72.690 | 1993 | 157.326 |
1978 | 75.700 | 1994 | 179.241 |
1979 | 76.912 | 1995 | 189.796 |
1980 | 65.921 | 1996 | 200.835 |
1981 | 72.194 | 1997 | 201.654 |
1982 | 72.600 | 1998 | 232.219 |
1983 | 77.592 | 1999 | 262.605 |
1984 | 85.290 | 2000 | 302.900 |
1985 | 97.443 | 2001 | 295.000 |
1986 | 113.528 | 2002 | 277.900 |
1987 | 129.315 |
Unnið úr tölum útlendingaeftirlitsins af Ferðamálaráði.