Flugstöð Leifs Eiríkssonar meðal þeirra bestu í heimi
Alþjóðasamtök flugvalla standa árlega fyrir könnun meðal farþega um gæði flugstöðva. Viðurkenningar fyrir árið 2004 voru afhentar á dögunum og hafnaði Flugstöð Leifs Eiríkssonar í þriðja sæti í flokki minni flugstöðva, eða þar sem færri en 5 milljónir farþega fara um.
Ferðamenn völdu Hong Kong bestu flugstöð í heimi árið 2004. Í öðru sæti lenti Seoul Incheon og í því þriðja flugstöðin í Singapore. Í flokki minni flugstöðva var flugstöðin í Halifax í fyrsta sæti, Malta í öðru sæti og þá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Þetta er niðurstaða svokallaðrar AETRA könnunar sem framkvæmd er á vegum Airports Council International (ACI) and the International Air Transport Association (IATA). Samtökin veita árlega verðlaun þeim flugvöllum sem standa sig best í þessari könnun.
Árið 2004 var könnunin framkvæmd á 48 flugvöllum um allan heim. Farþegar eru fengnir til að svara spurningum á vettvangi um hina ýmsu þjónustuþætti í byggingunni. Alls eru þetta 31 þjónustuþáttur sem farþegar eru spurðir um m.a. aðgengi, leiðbeiningar, þjónustu, aðstöðu, öryggi og umhverfi. Gagna í þessari könnun er aflað allt árið, en niðurstöður birtar ársfjórðungslega. Vefur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar
Mynd: Hrönn Ingólfsdóttir forstöðumaður markaðssviðs tók við verðlaununum fyrir hönd Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf.