Food and Fun hátíðin haldin í fimmta sinn
Matar- og skemmtihátíðin "Food and Fun " verður haldin á Íslandi í fimmta sinn dagana 22.-26. febrúar næstkomandi. Hátíðin er haldin í samstarfi Icelandair, Reykjavíkurborgar og fleiri aðila og er á sama tíma og vetrarhátíð sem borgin stendur fyrir. Borgarstjórahjón Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna, þau Dianne og Anthony A. Williams, verða heiðursgestir hátíðarinnar.
Samstarfsaðili "Food and Fun" hátíðiarinnar er m.a. Iceland Naturally, sem er sameiginlegur kynningarvettvangur íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja í Bandaríkjunum og vistað hjá skrifstofu Ferðamálastofu í Bandaríkjunum. Fyrirtækin innan þess samstarfs eru Icelandair, Icelandic® USA, íslenskur landbúnaður, Iceland Seafood, Iceland Spring Natural Water, Flugstöð Leifs Eirikssonar, 66 Norður og Bláa lónið. Með hátíðinni er stefnt að því að kynna gæði íslenskra matvæla og veitingamennsku á nýstárlegan hátt, svipað og íslensk tónlist hefur verið kynnt með Iceland Airwaves tónlistarhátíð Icelandair sem haldin er árlega. Undanfarin ár hefur "Food and Fun" hátíðin vakið mikla athygli erlendis og er nú gert ráð fyrir tugum erlendra fréttamanna til að fylgjast með hátíðinni.
Heimskunnir matreiðslumeistarar á veitingahúsum borgarinnar
Veitingahús borgarinnar og matreiðslumeistarar þeirra verða í aðalhlutverki þessa daga. Heimskunnir matreiðslumeistarar frá Bandaríkjunum og Evrópu munu koma sér fyrir í eldhúsum nokkurra bestu veitingahúsa höfuðborgarinnar og elda með íslenskum starfsbræðrum sælkeramáltíðir fyrir gesti þá daga sem hátíðin stendur yfir. Veitingastaðirnir eru Apótek, Einar Ben, 3 Frakkar, Hótel Holt, Grillið, La Primavera, Perlan, Sjávarkjallarinn, Siggi Hall á Óðinsvéum og Vox.
Alþjóðleg matreiðslukeppni í Hafnarhúsinu
Meðal atriði á hátíðinni er alþjóðleg matreiðslukeppni sem fram fer í Hafnarhúsinu á laugardaginn 25. febrúar og hefst kl. 13. Þar hafa meistarakokka hátíðarinnar þrjár klukkustundir til að útbúa ýmsa rétti sem síðan eru lagðir í mat dómnefndar. Almenningi er frjálst að koma og fylgjast með og hefur keppnin einmit dregið að sér fjölda fólks undanfarin ár. Hátíðinni lýkur með Gala kvöldverði á Nordica hótelinu laugardagskvöldið 25. febrúar. Vefsíða Food and Fun