Forval vegna skipulags og umhverfishönnunar við Landmannalaugar
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti í ársbyrjun Sveitarfélaginu Rangárþingi ytra styrk til að halda hugmyndasamkeppni um hönnun og skipulag fyrir Landmannalaugasvæðið. Nú hefur sveitarfélagið efnt til forvals fyrir hugmyndasamkeppnina í samvinnu við Umhverfisstofnun og Félag íslenskra landslagsarkitekta.
Svæðið er innan Friðlands að Fjallabaki, um 1,7 km² og tekur yfir núverandi þjónustusvæði í Landmannalaugum og næsta nágrenni, allt frá Grænagili og norður að Norðurnámshrauni.
Á svæðinu er m.a. gert ráð fyrir að verði eftirfarandi:
• Aðstaða Umhverfisstofnunar og gestastofa
• Gisti‐ og veitingaþjónusta
• Aðstaða fyrir starfsfólk, landverði og aðra eftirlitsaðila
• Aðstaða fyrir daggesti, samverustaður fyrir leiðsögufólk og hópa
• Tjaldsvæði
• Aðkomusvæði, bílastæði og rútustæði
• Endurbætt stígakerfi og aðgengi fyrir hreyfihamlaða
• Endurbætt aðstaða tengd náttúrulaug
Valdir verða 3 ‐ 4 hópar til þátttöku í samkeppninni og mun hver um sig fá greitt fyrir tillögur sínar að ákveðinni
upphæð. Skil í samkeppni verða um miðjan nóvember.
Nánari upplýsingar um skil á forvalsgögnum, framkvæmd og val á þátttakendum er að finna á vef Rangárþings ytra, vef Félags íslenskra landslagsarkitekta og vef Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Skil á forvalsgögnum er fyrir kl. 16.00 þann 10. júlí 2014.