Forverkefnisskýrslan "Plokkfiskur" komin út
Út er komin forverkefnisskýrslan "Plokkfiskur-íslensk strandmenning sem grunnur að ferðaþjónustu í framtíðinni". Um er að ræða samstarfsverkefni Húsafriðunarnefndar, Samgönguráðuneytisins og siglingastofnunar en að því hafa einnig komið fleiri aðilar, m.a. Ferðamálaráð Íslands.
Forsaga málsins
Í kjölfar Norrænnar vitaráðstefnu í maí 2003 lagði Húsafriðunarnefnd ríkisins fram fyrstu áætlun um varðveislu og friðun íslenskra vita, "Greinargerð um varðveislumat vita og tillögur um friðun", 1. desember 2003. Þar með varð Ísland eitt af fyrstu löndum heims til að skilgreina vita landsins sem mikilvægan hluta menningararfs þjóðarinnar og veita hluta þessara bygginga gæðastimpil með friðun.
Samstarfi komið á
Með greinargerðina að viðmiðun og í samvinnu við Íslenska vitafélagið var spurningin um framhaldandi vinnu í sambandi við áætlunina rædd við Siglingastofnun og Samgönguráðuneytið. Í kjölfarið var komið á laggirnar Þverfaglegri samvinnu þar sem aðalmarkmiðið er að líta á strandmenningu landsins alls sem grunn að áframhaldandi friðun og hvernig hægt sé að nota strandmenningu við þróun á gæðaferðaþjónustu (kvalitetsturisme). Húsafriðunarnefnd, samgönguráðuneytið og Siglingastofnun réðu Bjálkann ehf og Rådgjevningsfirmaet "LAURA" til að koma með tillögur að því hvernig hægt sé að kortleggja þessa möguleika og hvað hægt sé að gera til að koma kerfisbundinni þróun í ferðaþjónustu, byggðri á strandmenningu Íslands.
Ljósmynd: Ingi Gunnar Jóhannsson