Frakkar fjölmenntu og fjörugar umræður
Góð mæting var á kynningarfundinn í París síðastliðinn föstudag. Ferðasalar fjölmenntu á fundinn og að honum loknum urðu fjörlegar umræður milli íslenskra ferðaþjónustuaðila og franskra ferðasala.
Í máli þeirra sem eru að selja ferðir til Íslands birtust áhyggjur af verðlagsmálum og óstöðugleika þeim sem ríkir nú um stundir en einnig kom fram að bókanir ganga mjög vel hjá þeim flestum og að greinilegur er mikill Íslandsáhugi í Frakklandi. Frakkar meta náttúru landsins mikið og sækja fyrst og fremst til landsins til að njóta einstæðrar upplifunar og útivistar.
Fundinn í París var annar fundurinn í röð kynningarfunda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu í Evrópu. Um er að ræða samstarf Ferðamálastofu, utanríkisráðuneytis, Útflutningsráðs, Samtaka ferðaþjónustunnar og Höfuðborgarstofu sem tekið hafa höndum saman í samræmdu átaki við að kynna málstað Íslands erlendis. Í dag er fundað í Kaupmannahöfn, í Frankfurt á morgun og Osló á miðvikudaginn.
Á meðfylgjandi mynd sem Þorleifur Þór Jónsson, forstöðumaður nýrra markaða hjá Útflutningsráði tók, eru þau Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Tómas Ingi Olrich, sendiherra í París og fyrrverandi formaður Ferðamálaráðs.