Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir styrkumsóknum
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum um styrki til uppbyggingar á ferðamannastöðum fyrir árið 2012. Sjóðnum var komið á laggirnar í kjölfar laga frá Alþingi í júní síðastliðnum og eru tekjur hans 60% af gistináttaskatti.
Hlutverk sjóðsins:
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er vistaður hjá Ferðamálastofu. Samkvæmt lögum nr. 75/2011 um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Þá skal með fjármagni úr sjóðnum leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.
Fjármagni úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða skal varið til:
- Uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum sem eru í eigu opinberra aðila eða á náttúruverndarsvæðum.
- Framkvæmda sem varða öryggi ferðamanna og verndun náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila jafnt sem einkaaðila.
Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er heimilt að fjármagna undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna framkvæmda en sjóðnum er ekki heimilt að bera rekstrarkostnað.
Forsendur styrkveitinga:
- Framkvæmdasjóðurinn leggur sérstaka áherslu á verkefni þar sem horft er til heildarmyndar ferðamannastaða og ferðamannaleiða.
- Hægt er að sækja um styrki fyrir skipulags- og hönnunarvinnu ásamt undirbúningsrannsóknum. Við skipulag og hönnun mannvirkja er höfð til hliðsjónar “Menningarstefna í mannvirkjagerð” sem gefin var út af Menntamálaráðaneytinu í apríl 2007, Leiðbeiningarritið Góðir staðir, sem fjallar um uppbyggingu vandaðra ferðamannastaða (í vinnslu), og skipulagslög nr. 123/2010.
- Ef sótt er um styrk fyrir byggingu mannvirkja eða aðrar framkvæmdir verður skipulag, fullnaðarhönnun og framkvæmdaleyfi að liggja fyrir.
- Framlög til einkaaðila eru háð því skilyrði að um sé að ræða ferðamannastaði sem eru opnir almenningi.
- Að jafnaði getur styrkur ekki numið hærri upphæð en 50% af kostnaði.
- Heimilt er að áfangaskipta verkefnum og styrkveitingu í 3-5 áfanga á jafnmörgum árum.
- Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi og rekstri svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi verkefni eftir að framkvæmdum lýkur.
- Ekki er hægt að nýta neinn hluta styrkupphæðarinnar til rekstrarkostnaðar viðkomandi ferðamannastaðar eða mannvirkja.
- Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er ekki heimilt að:
a) Bera rekstrarkostnað mannvirkja, náttúruverndarsvæða eða annarra
ferðamannastaða í opinberri eigu.
b) Styrkja opinbera aðila, einstaklinga, félagasamtök eða eignarhaldsfélög sem hafa
með höndum rekstur ferðamannastaða eða náttúruverndarsvæða umfram þá
hámarksupphæð sem leyfilegt er samkvæmt minniháttarreglunni „de minimis rule“,
nú að hámarki € 200.000 á hverju 36 mánaða tímabili að frádregnum öðrum
styrkjum frá opinberum sjóðum sem viðkomandi hefur fengið til sömu verkefna á
sama tímabili.
c) Veita fjármagni til verkefna sem þegar eru fullunnin.
Allar umsóknir skulu innihalda:
- Verkefnislýsingu sem lýsir hugmyndinni með rökstuddum og skýrum hætti
- Kostnaðar- og verkáætlun
- Afrit af skipulagi svæðis og/eða skriflegt samþykki viðkomandi yfirvalda vegna verkefnisins
- Teikningar af mannvirkjum, þar sem það á við, og/eða skriflegt samþykki byggingarfulltrúa
- Skriflegt samþykki allra landeigenda og/eða umsjónaraðila
Nánari leiðbeiningar eru á umsóknasíðu.
Hverjir geta sótt um:
Öllum sem hagsmuna eiga að gæta er frjálst að sækja um styrk að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Við úthlutun verður m.a. tekið mið af ástandi og álagi á svæði, og mikilvægi aðgerðanna út frá náttúruverndarsjónarmiðum.
Hvar ber að sækja um:
Umsóknareyðublöð er að finna á hér á vefnum á sérstakri umsóknasíðu. Þar eru jafnframt leiðbeiningar um hvernig skal sækja um.
Umsóknarfrestur er til og með 25. nóvember 2011.
- Opna upplýsingasíðu fyrir umsóknir
Nánari upplýsingar veitir Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri Ferðamálastofu í síma 535-5500 eða með vefpósti sveinn@ferdamalastofa.is.
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson - www.arctic-images.com