Framkvæmdasjóður ferðamannastaða: Auglýst undir lok september
13.09.2016
Vert er að benda á að auglýst verður eftir umsóknum um styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða undir lok september með umsóknarfresti í október. Auglýsingin mun birtast á heimasíðum Ferðamálastofu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.
Líkt og segir í 1. grein um lög sjóðsins þá skal með stofnun hans stuðlað að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Þá skal með fjármagni úr sjóðnum leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.