Framkvæmdasjóður ferðamannastaða: Ný lög, reglugerð og stjórn
Halldór Eiríksson, Anna G. Sverrisdóttir, Halldór Halldórsson, og Steinunn Fjóla Sigurðardóttir
skipa nýja stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.
Í vor voru samþykkt á Alþingi breytingar á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Nú hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, einnig gefið út nýja reglugerð um sjóðinn, sem tekur mið af breyttum lögum. Þá hefur ný stjórn einnig verið skipuð.
Sjóðurinn er sem fyrr í vörslu Ferðamálastofu sem annast rekstur hans, þ.m.t. framkvæmd úthlutana úr sjóðnum og samskipti við styrkþega, upplýsingamiðlun, uppgjör, bókhald og gerð ársreikninga.
Sveitarfélög og einkaaðilar sæki um
Meginbreyting laganna felst í því að nú er ekki lengur gert ráð fyrir því að ríkið sæki um í sjóðinn heldur verði hægt að sækja um styrki til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Þá bætast við lögin tvær málgreinar þess efnis að framkvæmdir sem eru á landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum koma ekki til álita við úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða nema sérstaklega standi á, verkefnið sé í þágu almannahagsmuna og þarfnist skjótrar úrlausnar. Einnig að staðir sem úthlutað er til skuli vera opnir gjaldfrjálsri umferð almennings eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og reglugerðum. Landeiganda eða umsjónaraðila lands er þó heimilt að taka gjald fyrir veitta þjónustu.
Framlag á fjárlögum
Breyting er einnig gerð á fjármögnun sjóðsins þannig að nú er framlag til hans ákvarðað í fjárlögum.
Ný stjórn
Breyting var einnig gerð hvað varðar skipan stjórnar. Ráðherra skipar samkvæmt lögunum fjóra fulltrúa í stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til tveggja ára í senn. Skal einn skipaður eftir tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar, einn eftir tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn eftir tilnefningu ráðherra sem fer með málefni náttúruverndar og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Allir viðkomandi aðilar hafa nú tilnefnt sína fulltrúa sem ráðherra hefur staðfest. Nýja stjórn skipa:
- Halldór Eiríksson arkitekt, formaður
- Anna G. Sverrisdóttir, tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar
- Halldór Halldórsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra Sveitarfélaga
- Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, tilnefnd af umhverfis- og auðlindaráðuneyti
Stjórn sjóðsins gerir að jafnaði einu sinni á ári tillögur til ráðherra um úthlutanir úr sjóðnum.
Næsti umsóknarfrestur
Senn líður að því að auglýst verði eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum vegna framkvæmda á árinu 2018. Get er ráð fyrir að það verði í seinni hluta þessa mánaðar og verður vandlega kynnt þegar þar að kemur.
Nánari upplýsingar: