Framtíðarsýn ferðamála á Vesturlandi mótuð
Niðurstöður opinna funda vegna áfangastaðaáætlunar á Vesturlandi, sem haldnir voru í nóvember síðastliðnum gefa til kynna að fólk sé almennt mjög ánægt með þá framþróun sem orðið hefur undanfarin ár í ferðaþjónustu á Vesturlandi, bæði varðandi fjölgun ferðamanna og aukið framboð á gistingu, afþreyingu og veitingum. Skýrt kom hins vegar fram að bæta þyrfti uppbyggingu og gæði innviða og grunngerðar sem lýtur að aðgengi, upplýsingum, öryggi og upplifun fólks, sem og þolmörkum náttúru og samfélags. Niðurstöður fundanna voru notaðar til að vinna grunn að framtíðarsýn ferðamála á Vesturlandi.
Innviðir efst á baugi
Á fundunum sköpuðust miklar umræður um innviði. Í því samhengi var sérstaklega talað um umferð, vegi og útivistarstíga, fjarskiptasamband og raforkuöryggi, merkingar og upplýsingagjöf, almenningssamgöngur, vetrarþjónustu vega og einbreiðar brýr, löggæslu og heilbrigðisþjónustu, almennt þjónustuframboð, verðlagningu, gjaldtöku og gestrisni. Einnig var mikið rætt um dreifingu ferðamanna um landið, áherslur í markaðssetningu og mismunandi aðstæður og aðstöðu á milli staða og svæða.
Kallað eftir samtali og samráði
Jafnframt var kallað eftir samtali á milli ferðaþjónustugreinarinnar og ráðamanna varðandi lagaumgjörð, eftirlit, stefnumótun og stýringu ferðaþjónustunnar. Fundarmenn kölluðu einnig eftir meira samráði milli markaðsgeirans, ferðaskipuleggjenda og ferðaþjónustuaðila, og einnig auknu samtali milli atvinnugreinarinnar og samfélagsins.
Fræðsla, vöruþróun og gæðastarf
Fundarmenn voru einnig áfram um að ferðamenn fengju meiri fræðslu um samfélagið og lífið í landinu, að rétt mynd væri gefin af landi og þjóð í stað glansmyndar og að samfélagið væri frætt um ferðaþjónustuna. Mikið var rætt um mikilvægi þess að koma á fót virkum vettvangi þar sem ferðaþjónustuaðilar á Vesturlandi gætu starfað markvisst saman að vöruþróun, gæðastarfi og markaðsmálum. Síðast en ekki síst var samhljómur um að allir sem kæmu að ferðamálum á einhvern hátt þyrftu að sýna ábyrgð í verki og voru hlutverk stjórnvalda, samfélagsins og greinarinnar sjálfrar rædd í þaula.
Grunnur að framtíðarsýn
Úr gögnum sem söfnuðust á þessum fundum hefur verið unninn grunnur að framtíðarsýn ferðamála á Vesturlandi. Í janúar verður þessari vinnu haldið áfram og opnir vinnufundir haldnir, þar sem unnið verður að markmiðasetningu og undirbúningi aðgerðaáætlunar sem byggir á þeirri framtíðarsýn.
Nánar má lesa um gerð áfangastaðaáætlunar á Vesturlandi á heimasíðum Ferðamálastofu og Vesturlandsstofu.
Opnir fundir í janúar eru eftirfarandi:
- 16. janúar: Borgarbyggð og Skorradalur, Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi, kl. 17:00-20:00
- 17: janúar: Dalabyggð, Dalabúð í búðardal, kl. 17:00-20:00
- 22. janúar: Akranes og Hvalfjarðarsveit, Gamla Kaupfélaginu á Akranesi, kl. 17:00-20:00
- 23: janúar: Snæfellsnes, Samkomuhúsið Grundarfirði, kl. 17:00-20:00