Framtíðarsýn Samtaka um heilsuferðaþjónustu kynnt á aðalfundi
Aðalfundur Samtaka um heilsuferðaþjónustu var haldinn 22. mars síðastliðinn á Grand hotel í Reykjavik. Þar var meðal annars kynnt stefnumótun fyrir samtökin til ársins 2021.
Áður en venjuleg aðalfundarstörf hófust flutti Csilla Mezösi fróðlegt erindi en hún er sérfræðingur í heilsuferðaþjónustu hjá ferðamálaráði Ungverjalands og stjórnarmaður í European Spa Association erindi. Csilla er margfróð um þessa tegund ferðaþjónustu og var erindi hennar afar vel tekið.
Stefnumótun kynnt
Á eftir erindinu tók Dagný H. Pétursdóttir til máls og kynnti stefnumótun fyrir Samtök um heilsuferðaþjónustu til ársins 2021. Framtíðarsýn samtakanna er að öflug heilsuferðaþjónusta verði ein af meginstoðum ferðaþjónustu á Íslandi og að erlendir jafnt sem innlendir gestir njóti sérstöðu landsins á sviði heilsuferðaþjónustu. Framtíðarsýnin byggir á fagmennsku þeirra sem í greininni starfi og góðri aðstöðu fyrir gesti, en ekki hvað síst byggir hún á umhverfisvænni orku og einstakri náttúru landsins.
Fjögur meginatriði eru á stefnuskrá samtakanna næstu 10 árin
- Rannsóknir og þekking:
Að efla tengsl við háskóla og aðrar stofnanir, hvetja til rannsóknaverkefna - Nýsköpun og vöruþróun:
Námskeiðahald t.d. í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð, vera vettvangur vöruþróunar, veita hvatningaverðlaun - Gæðamál:
Gerð gæðasáttmála sem allir aðilar að samtökunum undirrita, vera virk í mótun á gæðakerfi Ferðamálastofu - Sölu- og markaðsmál:
Heimasíða samtakanna verði efld til muna, innra starf samtakanna verði styrkt ásamt því að styrkja grasrótina, hefja markvisst samstarf við Íslandsstofu og að styrkja innviði sölu- og markaðsstarfs.
Formaður samtaka um heilsuferðaþjónustu Magnús Orri Schram (sjá mynd) tók til máls og fór í gegnum dagskrá fundarins. Hann tilkynnti jafnframt að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku, en sagðist jafnframt ætla að fylgjast með og að halda áfram að vera samtökunum innanhandar ef það gæti orðið verkefninu til framdráttar.