Frestur til að kynna sér drög að nýjum gæða- og umhverfisviðmiðum Vakans að renna út
Endurskoðun gæða- og umhverfisviðmiða Vakans, fyrir ferðaþjónustu aðra en gistingu, hefur staðið yfir á þessu ári og mun ný útgáfa taka gildi um komandi áramót. Um er að ræða 5. útgáfu almennra og sértækra gæðaviðmiða ásamt umhverfisviðmiðum. Á vefsíðu Vakans hefur aðilum gefist tækifæri á að kynna sér drögin um nokkurra mánaða skeið en frestur til að senda inn ábendingar eða athugasemdir rennur út 1. desember n.k.
Breyttar áherslur
Endurskoðun þessi tekur óhjákvæmilega mið af þeim veruleika sem við höfum búið í undanfarin misseri og breyttum áherslum í kjölfar Covid-19 sem birtist í aukinni áherslu á þrif og sóttvarnir. Auk þess er lögð enn meiri áhersla á öryggi viðskiptavina með því að bæta við viðmiðum sem snúa að bættri upplýsingagjöf.
Vakinn – Á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu
Vert er að segja frá því að öll viðmið Vakans; umhverfis-, almenn- og sértæk gæðaviðmið, byggja að stórum hluta á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þar sem kröfur Vakans tengjast á einn eða annan hátt þremur meginstoðum sjálfbærninnar þ.e. umhverfi, samfélagi og efnahag. Má í þessu sambandi t.a.m. nefna gátlistann Á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu, sem er nauðsynlegt fylgigagn fyrir vottun Vakans, en vinna við endurskoðun gátlistans stendur nú yfir.
Við vekjum athygli á að núverandi drög, sem finna má á vefsíðu Vakans, hafa nú þegar tekið nokkrum breytingum. Ef áhugi er á að kynna sér uppfærð drög er aðilum bent á að senda póst á vakinn@vakinn.is