Fróðleg heimsókn ferðamálastjóra Kína
Í dag lýkur heimsókn ferðamálastjóra Kína, Hr. He Guang Wei, hingað til lands. Hann kom ásamt fjórum starfsmönnum ferðamálaráðs Kína síðastliðinn sunnudag til þess bæði að ræða við íslensk ferðamálayfirvöld og kynnast Íslandi sem áfangastað.
Magnús Oddsson ferðamálastjóri fylgdi He Guang Wei á ferð hans um landið. Á mánudeginum var farið um Suðurland og komið víða við. Þá var fundað um ferðamál í framhaldi ADS samkomulaginu um ferðamál sem gert hefur verið á milli landanna tveggja. Í gær var síðan að ósk kínverska ferðamálastjórans spilað golf í Grafarholti.
Að sögn Magnúsar var einkar fróðlegt að hitta kínverska hópinn og kynnast viðhorfum þeirra og áætlunum varðandi þróun ferðamála. Sem kunnugt er hefur efnahagur Kínverja verið á hraðri uppleið og því spáð að ferðalög þessarar fjölmennu þjóðar til annarra landa muni aukast verulega á næstu árum.
Meðfylgjandi mynd var tekin af ferðamálastjórum Kína og Íslands við Gullfoss.