Fundað um samræmda flokkun gististaða á Norðurlöndunum
Í lok síðustu viku var haldin í Osló samráðfundur um flokkunarkerfi það sem notað er til að flokka gististaði í nokkrum löndum, þar á meðal á Íslandi. Þetta var fyrsti samráðsfundurinn af þessu tagi.
Breiðist út á Norðurlöndunum
Flokkunarkerfið hefur verið að ná aukinni útbreiðslu á Norðurlöndunum en eins og staðan er í dag þá er flokkunarviðmiðið sem HORESTA (Danska hótel og veitinga sambandið) þróaði notað í Danmörku, Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og Svíþjóð. Norðmenn eru að skoða kerfið og má jafnvel vænta þess að þeir taki ákvörðun um að vera með í byrjun næsta árs. Þá hefur kerfið verið kynnt fyrir Finnum og einnig Eystrasaltsríkjunum. En ekkert þessara landa hefur tekið ákvörðun um hvort þau verða með aða ekki.
Svíar að bætast í hópinn
"Fundarmenn voru sammála því að það myndi styrkja kerfið enn frekar ef fleiri lönd yrðu með. Svíar eru nú í óðaönn að flokka sína gististaði en þar verður kerfið formlega tekið í notkun 1. desember næstkomandi. Þá er áætlað að um 300 hótel hafi verið flokkuð í Svíþjóð og ári seinna verði sú tala komin upp í 700 hótel," segir Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs Íslands, sem sótti fundinn. Líkt og á Íslandi þá er gististöðum í Svíþjóð í sjálfsval sett hvort þeir eru flokkaðir eða ekki en í Danmörku er meðlimir HORESTA sem reka gististað með fleirum en 8 herbergjum skyldaðir til að láta flokka sig.
Mikilvægt að viðmiðin séu nánast þau sömu
"Í gruninn eru sömu viðmiðin notuð í löndunum fimm en þó er nokkur atriði breytileg á milli landa og sem dæmi um slíkt er að Danirnir krefjast þess að á gististöðum sem flokkast með þrjár stjörnur eða fleiri hafi tóbak til sölu. Bæði Íslendingar og Svíar hafa hafnað þessu atriði. Við áætlum að samráðsfundir sem þessi verði haldnir árlega, enda eru allir aðilar sem nota kerfið sammála því að mikilvægt sé að viðmiðin verði nánast þau sömu í þeim löndum þar sem kerfið er notað," segir Elías.