Fundaröð Ferðamálaráðs og Ferðamálasamtaka Íslands
Í lok sumars hófst fundaröð sem Ferðamálaráð og Ferðamálasamtök Íslands efndu til í sameiningu. Fundað verður með heimamönnum um allt land og áætlað að ljúka yfirferðinni seinnipart vetrar.
"Stjórn Ferðamálasamtaka Íslands samþykkti á síðasta vetri að efna til funda formannsins með sem flestum aðilum sem koma að ferðamálum heima í héraði. Þessir fundir voru hugsaðir bæði til að veita heimamönnum upplýsingar um það sem stjórn FSÍ væri að aðhafast og ekki síður til að hlusta á viðhorf heimamanna. Ég hafði orð á þessu við nýjan formann Ferðamálaráðs, Einar K. Guðfinnsson, en hann hafði verið að hugsa á sömu nótum og þótti honum því tilvalið að ráðið og samtökin færu í þetta saman," segir Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, um tilefni fundanna. Auk þeirra hefur Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, einnig verið á fundinum.
Líflegar umræður
Fundaröðin hófst á Tálknafirði 24. ágúst og síðan hefur verið borið niður víðar á Vestfjörðum, á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Til fundanna hafa m.a. verið boðaðar stjórnir ferðamálasamtakanna á hverju svæði, ferða- og atvinnumálafulltrúar, sveitarstjórnarmenn og rekstraraðilar í greininni. "Fundirnir hafa undantekningarlaust verið vel sóttir og líflegar umræður skapast. Þarna hefur verið komið inn á alla helstu þætti sem snúa að málaflokknum, svo sem markaðsmál erlendis sem innan lands, rekstrarumhverfi greinarinnar, samgöngur, fjármögnun, gæði og öryggi, þróun upplýsingamiðstöðva, verkefni og verksvið Ferðamálaráðs o.fl. Ég tel ótvírætt að allir aðilar hafi haft gagn af þessum fundum og þeir hafi orðið til að upplýsa ýmis atriði og ekki síst til að styrkja tengsl á milli aðila," segir Pétur.
Myndatexti: Fundaröðin hófst á Tálknafirði 24. ágúst og síðan hefur verið borið niður víðar á Vestfjörðum, á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Myndin er frá Ísafirði.