Fara í efni

Fyrirspurnum um ferðir milli Þýskalands og Íslands fjölgar hjá skrifstofu Ferðamálaráðs í Þýskalandi

Um 5% fleiri fyrirspurnir hafa borist til skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Þýskalandi um ferðir milli landanna í ár en á sama tíma í fyrra. Haukur Birgisson, forstöðumaður skrifstofunnar ytra, segir að það sé nánast ótrúlegt að á sama tíma og verulega dragi úr ferðamannastraumi milli flestra annarra landa þá stefni í að Ísland haldi sínum hlut meðal Þjóðverja og muni jafnvel auka hann. Því sé mikilvægt að fá aukna fjármuni í landkynningu eins og nú sé að eiga sér stað. Einnig sé mikilvægt að það haldist í hendur uppbygging á ferðamannastöðum, upplýsingagjöf og markaðssetning til að framboð og eftirspurn haldist í hendur.

Haukur segir að bókanir hjá söluaðilum líti ágætlega út eins og er, en því megi ekki gleyma að samkeppnin sé mikil. Ferðamálaráð hafi staðið að ýmsum kynningum á landinu á undanförnum misserum, bæði á sýningum og með auglýsingum. Nauðsynlegt sé að halda vel á spöðunum í þessum efnum þannig að landkynningin sé hnitmiðuð og hagnist allri ferðaþjónustunni í sem víðustum skilningi.

Ferðamálaráð hefur staðið að auglýsingaherferð í Þýskalandi frá síðastliðnu hausti í samstarfi við Flugleiðir. Í herferðinni er lögð áhersla á heilsutengdar ferðir, afþreyingu og fleira. Fyrirspurnum hefur fjölgað í kjölfar herferðarinnar, einnig varðandi sumarferðir til Íslands, þó svo að auglýst sé nú yfir vetrartímann. Borgarferðir, ráðstefnur og aðrar styttri ferðir draga ekki úr áhuga á sumarferðum og keppa ekki við þær en auka hins vegar áhuga á landi og þjóð.

Það er fyrst og fremst náttúra Íslands sem hefur mesta aðráttaraflið að sögn Hauks. Hann segir að Ferðamálaráð slaki hvergi á í kynningu á henni. Einnig sé þó lögð áhersla á hvað hægt sé að gera á Íslandi annað en að njóta náttúrunnar, hvaða þjónusta sé í boði o.s.frv. Til að mynda séu borgaferðir, heilsutengdar ferðir, hvataferðir fyrirtækja og fleira í þeim dúr í vexti í Þýskalandi, og Ferðamálaráð ætli að stuðla að því að Íslendingar fái sinn skerf af þeirri köku. Þar sé um að ræða allt annan hóp en þann sem hafi áhuga á náttúrunni eingöngu, eða sumarferðum.


( Úr Morgunblaðinu
21. feb. 2002 )