Fara í efni

Fyrsti áfanginn í vottun Green Globe á Snæfellsnesi

Flokkun gististaða víða um heim.
Flokkun gististaða víða um heim.

Fulltrúar fimm sveitarfélaga á Snæfellsnesi afhentu í liðinni viku Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra skýrslu um framtíðarstefnu sína fyrir Snæfellsnes. Skýrslan inniheldur stefnu í sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála á Snæfellsnesi til ársins 2015 og er fyrsti áfanginn í því að Snæfellsnes í heild sinni verði vottað sem umhverfisvænt svæði af alþjóðasamtökunum Green Globe 21.

Eftir því sem næst verður komist verður Snæfellsnes fyrsta heildstæða landsvæðið í Evrópu sem fær vottun af þessu tagi. Vinna við verkefnið hófst í september sl. en miðað er við að Snæfellsnes fái vottun sem umhverfisvænt ferðamannasvæði á hausti komanda.

Njóta alþjóðlegrar viðurkenningar
Það eru Snæfellsbær, Grundarfjörður, Stykkishólmur, Helgafellssveit og Eyja og Miklaholtshreppur sem standa að verkefninu og hafa þeirra fulltrúar unnið að stefnumótuninni en verkefnisstjórnin er í höndum Guðrúnar og Guðlaugs Bergmann frá Leiðarljós ehf. á Hellnum og Stefáns Gíslasonar frá Umís ehf. í Borgarnesi. GREEN GLOBE 21 eru alþjóðleg samtök sem votta umhverfisstjórnun fyrirtækja og stofnana innan ferðaþjónustunnar. Þau njóta alþjóðlegrar viðurkenningar og hafa nú vottað eða vinna að undirbúningi á vottun fyrirtækja í yfir fimmtíu löndum.

Bindum vonir við vottunina
Á vef Snæfellsbæjar er haft hefir Kristni Jónassyni bæjarstjóra að sveitarfélögin bindi umtalsverðar vonir við þennan gæðastimpil sem vottun Green Globe 21 samtakanna sé. "Við höfum trú á að þetta verði til að styrkja Snæfellsnesið enn frekar sem ferðamannasvæði og einnig teljum við þetta styrkja aðrar atvinnugreinar, ekki síst sjávarútveg. Það liggur allavega í augum uppi að fiskur sem veiddur er og unninn á svæði með þennan stimpil ætti að verða enn betri söluvara."


Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, afhendir Sturlu Böðvarssyni
samgönguráðherra skýrslu um stefnumótun í umhverfismálum á Snæfellsnesi.


F.v.: Guðbjörg Gunnarsdóttir, þjóðgarðsvörður Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls;
Óli Jón Gunnarsson, bæjarstjóri Stykkishólms; Benedikt Benediktsson,
oddviti Helgafellssveitar; Eyþór Björnsson, bæjarstjóri Grundarfjarðar;
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra; Magnús Oddsson ferðamálastjóri;
Guðbjartur Gunnarsson, oddviti Eyja og Miklholtshrepps og Kristinn
Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar.

Myndirmar eru af vef Snæfellsbæjar.