Gæði og verndun leiðarljósin í þróun ferðaþjónustu
Á dögunum sóttu nokkrir félagar í Félagi ferðamálafulltrúa á Íslandi árlegt ferðamálaþing EUTO (European Union of Tourist Officers) sem að þessu sinni var haldið á Möltu. Þingið fjallaði að mestu um mikilvægi þess að ferðaþjónustan geti á sjálfbæran hátt endurgert fortíðina og söguna og fært komandi kynslóðum þessa sömu sögu, minjar og náttúru.
Í tilkynningu frá Félagi ferðamálafulltrúa segir að í lok þings hafi EUTO sent frá sér yfirlýsingu þar sem hvatt er til sjálfbærrar þróunar hvers áfangastaðar fyrir sig. Lögð er áhersla á gæði fremur en magn í ferðaþjónustu og hið sérstæða á hverjum stað. Einnig verndun vörunnar sem í boði er og ferðaþjónustuaðilar og gestir voru hvattir til að hafa ávallt hugföst þau áhrif sem þeir hafa á umhverfið og með hvaða hætti takmarka megi þau áhrif. Þá leggur EUTO til að áhrif ferðaþjónustu á umhverfið verði rannsökuð frekar og þekking í ferðamennsku efld svo betur megi sjá fyrir framtíðarþróun vegna t.d. umhverfisbreytinga og fólksflutninga. Að auki segir í yfirlýsingunni að nauðsynlegt sé að hið opinbera veiti fjármagn til uppbyggingar á innviðum ferðaþjónustunnar til að skapa réttar aðstæður fyrir sjálfbæra þróun í atvinnugreininni. Hvatt er til þess að allt mannkyn hlúi að arfleifð sinni og meti og verndi auðlindir og eignir með því að takmarka neikvæð áhrif ferðaþjónustu. Ávallt skuli hugað að umhverfisvernd enda byggi ferðaþjónustan að stórum hluta tilvist sína á umhverfisþáttum. Væntingum ferðamanna skuli mætt og gott betur því gæði vörunnar fái ferðamenn til að dvelja lengur og eyða meiru.
Mynd: Ferðamálafulltrúar víðsvegar úr Evrópu sóttu þingið.