Gagnagrunnur Ferðamálastofu stöðugt að vaxa
Ferðamálstofa heldur utan um lang viðamesta gagnagrunn sem til er með upplýsingum um íslenska ferðaþjónustuaðila og þjónustu fyrir ferðafólk. Í grunninum eru nú upplýsingar um hátt í þrjú þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land, ásamt ýmsum hagnýtum upplýsingum fyrir ferðafólk, bæði á ensku og íslensku.
Í ársbyrjun 2013 voru skráningar í grunninn um 3.800 talsins í sex flokkum. Einstök fyriræki geta verið skráð í fleiri en einn flokk þannig að fjöldi aðila er rúmlega 2.850 talsins, fjölgaði um 250 á milli ára.
Rúmlega 700 áhugaverðir staðir
Samstarf er við markaðsstofur landshlutanna um skráningu og viðhald upplýsinga. Til að mynda halda þær utan um skráningu á áhugaverðum stöðum um allt land. Þar eru nú skráðir yfir 700 staðir.
Birtur á netinu og í handbók
Grunnurinn er öllum aðgengilegur á landkynningarvefnum, www.visiticeland.com, á www.ferdalag.is og á vefjum markaðsstofa landshlutanna. Allir aðilar eru hnitsettir og við vefina er tengdur kortagrunnur frá Loftmyndum. Þá er grunnurinn gefinn út í handbók einu sinni á ári
Áhersla á gæði og leyfismál
Mikil áhersla er lögð á að í grunninn sé enginn skráður nema hafa tilskilin leyfi til reksturs í ferðaþjónustu. Þar sem leyfismál í ferðaþjónustu eru á hendi nokkurra aðila er veruleg vinna því samfara að kalla eftir og uppfæra þær upplúsingar.
Ferðamálastofa heldur sjálf utan um leyfi fyrir ferðaskipuleggjendur og ferðaskrifstofur er auðveldast fyrir stofnunina að halda utan um að í grunninn sé enginn skráður með starfsemi sem fellur undir lög um skipan ferðamála, nema viðkomandi hafi aflað sér tilskilinna leyfa. Fyrir aðra flokka er kallað eftir upplýsingum frá viðkomandi leyfsiveitindum, svo sem sýslumönnum vegna starfsleyfa fyrir gistingu, heilbrigðiseftirliti vegna tjaldsvæða, Vegagerðinni fyrir samgönguhlutann o.s.frv.
Skráning án endurgjalds
Skráning í grunninn er ferðaþjónustuaðilum að kostnaðarlausu. Til að fá skráningu í grunninn skal hafa samband við Ferðamálastofu á netfangið upplysingar@ferdamalastofa.is eða síma 535-5500.