Gengið frá framhaldi FITUR-samstarfsins
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og Bjarni Djurholm, atvinnumálaráðherra Færeyja undirrituðu í gær samstarfssamning um ferðamál á milli landanna en ráðherrarnir fara með þann málaflokk, hvor í sínu landi. Um er að ræða framhald svonefnds FITUR-samstarfs.
Samningurinn tekur gildi 1. janúar 2003 og gildir í þrjú ár. Löndin leggja fram jafnháa upphæð til samstarfsins eða tíu milljónir íslenskra króna á ári. Hvort land tilnefnir þrjá fulltrúa í stjórn FITUR.
Auka ferðalög og önnur samskipti
Megintilgangur FITUR-samstarfsins er að auka ferðalög og önnur samskipti á milli Íslands og Færeyja. Í því skyni styrkir FITUR árlega fjölmarga íslenska og færeyska hópa og einstaklinga, auk fyrirtækja, sem hafa skýr markmið með ferðalögum sínum og í anda samstarfsins. FITUR hefur einnig komið ásamstarfi á milli skóla í löndunum tveimur.
Í FITUR-samningnum er lögð áhersla á að auka enn frekar samstarf íslenskra og færeyskra flugfélaga til þess að bæta megi samgöngur á milli landanna, en öruggar og tíðar ferðir á sanngjörnu verði eru undirstaða þess að samskiptin verði tryggð.
Í samningnum er lögð áhersla á að íbúar landanna beggja ferðist meira innbyrðis og er fjallað sérstaklega um samskipti í atvinnu- og menningarmálum, vinabæjartengsl og íþrótta- og námsferðir enda sé um að ræða samskipti sem líkleg eru til að mynda tengsl og auka skilning á milli þjóðanna.
Myndatexti: Ráðherrar ferðamamála á Íslandi og í Færeyjum undirrituðu samning um framhald FUITUR-samstarfsins. Með þeim eru á myndinni Steinn Lárusson, formaður FITUR (lengst til vinstri); Magnús Oddsson, ferðamálastjóri; og Heri H. Niclasen, ferðamálastjóri Færeyja (lengst til hægri).