Gestastofan í Skaftafelli stækkuð
Ákveðið hefur verið að breyta rekstrarfyrirkomulagi þjónustumiðstöðvarinnar í Skaftafelli. Skálinn sem hýst hefur annars vegar veitingasölu og hins vegar gestastofu verður gerður að einu rými.
Breytingin var ákveðin í kjölfar þess að enginn gaf sig fram þegar auglýst var í vetur eftir fólki sem áhuga hefði á að taka að sér veitingasöluna í þjónustumiðstöðinni. Var þá ákveðið að stækka gestastofuna um plássið sem veitingastofan og verslunin hafa haft. Í gestastofunni verður smáhorn fyrir kaffisölu og nauðsynlegustu vörur fyrir tjaldsvæðið. "Þetta fyrirkomulag er algengt í gestastofum erlendis og gefst vel svo við vonum að það verði eins hjá okkur segir Ragnar Frank Kristjánsson þjóðgarðsvörður í frétt á vefnum hornafjordur.is.
Þetta þýðir minni þjónustu fyrir stærri hópa í gestastofunni en Ragnar bendir á að stutt er í Freysnes þar sem öll þjónusta er til staðar og eins er góð þjónusta á Fagurhólsmýri og Kirkjubæjarklaustri. "Með þessum breytingum verður aðstaða í gestastofu mjög góð og í glerskálanum við hlið hennar er tilvalið að setjast niður með kaffibollann og njóta útsýnisins," segir. Ragnar.
Í fréttinni kemur einnig fram að fastráðnu starfsfólki við þjóðgarðinn hefur verið fjölgað sem hefur m.a. í för með sér að hægt er að lengja tímabilið sem unnið er í Þjóðgarðinum og ljúka verkefnum áður en ferðatímabilið hefst að vori.