Gistinætur heilsárshótela í apríl
Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í apríl síðastliðnum. Tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.
Gistinætur á hótelum í apríl síðastliðnum voru 110.000 en voru 88.000 í sama mánuði árið 2010. Gistinætur erlendra gesta voru um 74% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í apríl en gistinóttum þeirra fjölgar um 27% á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgar um 21% samanborið við apríl 2010. Hafa ber í huga að á þessu tímabili 2010 var gosið í Eyjafjallajökli og má því ætla að aukningin milli ára skýrist af því.
Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Norðurlandi. Á höfðuborgarsvæðinu voru 80.200 gistinætur í apríl sem er 28% aukning frá fyrra ári. Gistinætur á Suðurnesjum voru 4.900 í apríl sem er 30% aukning frá fyrra ári. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum úr 2.300 í 3.600 eða um 56% samanborið við apríl 2010. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum milli ára úr 1.800 í 2.600. Á Suðurlandi voru gistinætur 12.800 og fjölgaði þeim um 23% milli ára. Gistinóttum fækkaði á Norðurlandi um 17%, voru 5.900 samanborið við 7.100 í apríl 2010.
Gistinóttum á hótelum fyrstu fjóra mánuði
Gistinætur fyrstu fjóra mánuði ársins voru 343.600 en voru 315.900 á sama tímabili árið 2010. Gistinóttum fjölgaði á Austurlandi um 27%, Suðurnesjum um 19% og um 12% á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um 11% frá fyrra ári og um 5% á Suðurlandi. Á Norðurlandi fækkaði hins vegar gistinóttum um 18% ef miðað er við sama tímabil árið 2010.
Fyrstu fjóra mánuði ársins hefur gistinóttum erlendra gesta fjölgað um 9% og gistinóttum Íslendinga um 8%.