Gistinætur heilsárshótela í nóvember
Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í nóvember síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.
Gistinóttum fjölgar um 13%
Gistinætur á hótelum í nóvember voru 79.500 samanborið við 70.400 í nóvember 2010. Gistinætur erlendra gesta voru um 73% af heildarfjölda gistinátta í nóvember en gistinóttum þeirra fjölgaði um 19% samanborið við nóvember 2010 á meðan fjöldi gistinátta Íslendinga var svipaður á milli ára.
Gistinætur á hótelum á Austurlandi voru ríflega 2.000 í nóvember og fjölgaði um 90% frá fyrra ári. Á Suðurnesjum voru gistinætur 4.300 í nóvember sem er 44% aukning frá fyrra ári. Gistinætur á hótelum höfuðborgarsvæðisins voru 62.000 eða 16% fleiri en í nóvember 2010. Á Norðurlandi voru 3.300 gistinætur í nóvember sem eru um 3% aukning frá fyrra ári. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða fækkaði hinsvegar gistinóttum á milli ára, voru 1.400 samanborið við 1.800 í nóvember 2010.
Gistinóttum fjölgar um rúm 13% fyrstu ellefu mánuði ársins
Gistinætur á hótelum voru samtals 1.419.800 fyrstu ellefu mánuði ársins en voru 1.255.400 á sama tímabili árið 2010. Gistinóttum fjölgaði um 17% milli ára á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 9%, á Norðurlandi um 6%, 4% á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða og um 3% á Suðurlandi. Á fyrstu ellefu mánuðum ársins hefur gistinóttum erlendra hótelgesta fjölgað um 13% og gistinóttum Íslendinga um 15% samanborið við fyrri ár..