Gistinætur heilsárshótela í október
Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í október síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.
Gistinóttum fjölgar um 11%
Gistinætur á hótelum í október síðastliðnum voru 117.000. Til samanburðar voru þær 105.000 í október í fyrra og fjölgaði því um 11% milli ára. Erlendir gestir gistu langflestar nætur, 74% af öllum gistinóttum, og fjölgaði um 13% frá október í fyrra. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 6%.
Mest fjölgaði gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu (18%), næstmest á Norðurlandi (17%). Á Austurlandi var fjöldinn svipaður og í fyrra, en gistinóttum fækkaði hins vegar á Suðurnesjum um rúm 2% í október. Á Vesturlandi og Vestfjörðum voru 2.100 gistinætur, en það er 15% samdráttur miðað við október í fyrra. Einnig fækkaði gistinóttum á Suðurlandi, voru 14.000 í fyrra en 11.500 nú.
Gistinóttum fjölgar um rúm 13% fyrstu tíu mánuði ársins
Gistinætur á hótelum voru samtals 1.339.700 fyrstu tíu mánuði ársins en voru 1.185.000 á sama tímabili í fyrra. Þeim fjölgaði um 17% milli ára á höfuðborgarsvæðinu, 16% á Suðurnesjum og 7% á Austurlandi. Á Norðurlandi nam fjölgunin 6% fyrstu tíu mánuði ársins, 5% á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða og 4% á Suðurlandi. Gistinóttum erlendra hótelgesta fjölgaði um 12% fyrstu tíu mánuði ársins og Íslendinga um 17% miðað við fyrstu tíu mánuði ársins í fyrra.