Gistinætur og gestakomur á hótelum í júní
Gistinóttum á hótelum í júní síðastliðnum fjölgaði um tæp 8% milli ára. Þetta eru niðurstöður gistinátttalningar Hagstofunnar sem birtar eru mánaðarlega.
Gistinætur á hótelum í júní síðastliðnum voru 121.900 en voru 113.300 árið 2004. Hlutfallslega varð mesta aukningin á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinætur fóru úr 10.150 í 12.450 (23%). Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum úr 71.100 í 79.480 (12%) milli ára og á Austurlandi úr 4.760 í 4.900 (3%). Gistinóttum á hótelum í júní fækkaði hinsvegar á Norðurlandi (-4%) og á Suðurlandi (-11%).
Í júní árið 2005 voru gistinætur Íslendinga á hótelum 18.740 á móti 14.680 árið á undan, sem er tæplega 28% aukning. Gistinóttum útlendinga á hótelum fjölgar hlutfallslega minna eða um 5% milli ára, úr 98.620 í júní árið 2004 í 103.170 í júní árið 2005.