Gistinóttum á hótelum fækkaði um rúm 8% í september
Gistinætur á heilsárshótelum í september síðastliðnum voru 111.200 en 121.200 í sama mánuði í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Sem fyrr er vert að vekja athygli á að tölurnar taka ekki til allrar gistingar heldur eingöngu gistnótta á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.
Gistinóttum fækkaði í öllum landshlutum í september nema á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum. Þar fjölgaði þeim um 12%. Hlutfallslega fækkaði gistinóttum mest á Austurlandi, voru 4.700 í fyrra en 3.800 nú, en fækkunin nemur rúmum 19%. Á Suðurlandi fækkaði gistinóttum um 18%, voru 13.700 en 11.200 nú. Á Norðurlandi fækkaði þeim um 8%, voru 10.300 nú en 11.200 í september í fyrra. Á höfuðborgarsvæðinu voru 76.300 gistinætur í september en það er 8% minna en í fyrra þegar þær voru 83.000.
Fækkun gistinátta á hótelum í september skýrist eingöngu af erlendum gestum, en gistinóttum þeirra fækkaði um 12% miðað við september 2009. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði hins vegar um 10%.
Rúm 3% fækkun fyrstu níu mánuði ársins
Gistinætur fyrstu níu mánuði ársins voru 1.062.700 en 1.100.000 á sama tímabili árið 2009. Þeim fjölgaði á Vesturlandi og Vestfjörðum um 3% og um 1% á Suðurnesjum. Þeim fækkar í öðrum landshlutum, um 6% á Norðurlandi og Austurlandi, 4% á höfuðborgarsvæðinu og 2% á Suðurlandi. Fyrstu níu mánuði ársins hefur gistinóttum Íslendinga fækkað um 6% og gistinóttum útlendinga um 3% miðað við sama tímabil árið 2009.