Gistinóttum fækkaði um 10% í maí
Gistinætur á hótelum í maí síðastliðnum voru 105.100 en 117.000 í sama mánuði árið 2009. Þetta kemur fram í gistináttatölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.
Fækkun gistinátta nær til allra landsvæða nema Austurlands og Suðurlands en þar fjölgaði gistinóttum milli ára. Á Norðurlandi fækkaði gistinóttum um 17%, voru 8.200 samanborið við 9.800 í maí 2009. Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði gistinóttum úr 81.200 í 70.100 eða tæp 14% miðað við maí 2009. Á Vesturlandi og Vestfjörðum voru 3.500 gistinætur í maí sem er 5% minna en í maí 2009. Á Suðurnesjum voru 4.100 gistinætur í maí sem er litlu minna en árið áður. Gistinætur á Austurlandi voru 4.900 í maí og fjölgaði um 14% samanborið við maí 2009. Gistinóttum fjölgaði einnig á Suðurlandi, voru 14.300 sem er tæplega 3% aukning miðað við sama tíma í fyrra.
Fækkun gistinátta á hótelum í maí nær bæði til Íslendinga og erlendra gesta, en gistinóttum Íslendinga á hótelum fækkaði um 21% samanborið við maí 2009 en gistinóttum erlendra gesta fækkaði um 8%.
Rúmlega 1% fækkun frááramótum
Gistinætur fyrstu fimm mánuði ársins voru 416.600 en 421.600 á sama tímabili 2009. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi um 5%, á Norðurlandi um 4% og um 3% á Austurlandi samanborið við sama tímabil 2009. Á öðrum landsvæðum fækkaði gistinóttum milli ára, mest á Vesturlandi og Vestfjörðum um 12%.
Fyrstu fimm mánuði ársins fækkaði gistinóttum Íslendinga um 5% en gistinætur útlendinga eru svipaðar miðað við sama tímabil 2009.
Hagstofan vekur sem fyrr athygli á að að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Tölur fyrir 2010 eru bráðabirgðatölur.