Gistinóttum fjölgar um 6% á fyrsta ársþriðjungi
Gistinætur á hótelum og gistiheimilum fyrstu 4 mánuði árins voru 245 þúsund en þær voru 231 þúsund á sama tímabili árið 2002, samkvæmt gistináttatalningu Hagstofunnar. Fjölgunin á fyrsta ársþriðjungi er því 6% á milli ára. Útlendingum fjölgaði um 10% á meðan Íslendingum fækkaði um 1%. Athyglisvert er að á sl. 6 árum hefur gistinóttum útlendinga fjölgað um 72% á meðan gistinætur Íslendinga standa nánast í stað.
Skipting milli landshluta
Á þessum fyrsta ársþriðjungi 2003 voru gistinætur á höfuðborgarsvæðinu 175 þúsund en töldust 166 þúsund árið áður, sem er 5% fjölgun. Á Suðurnesjum fjölgaði gistinóttum um 11% og fóru úr 8.700 í 9.700. Á Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum um 400, eða 21%. Á Norðurlandi vestra töldust gistinæturnar tæplega 1.800 en voru rúmlega 1.200 árið 2002, sem gerir aukningu um 47%. Á Suðurlandi fóru gistinætur úr 21 þúsundum í 28 þúsund, sem er 31% aukning milli ára. Annars staðar á landinu átti sér stað fækkun milli ára. Á Vesturlandi fækkaði gistinóttum um rúmlega 1.100 (-17%), á Austurlandi fækkaði þeim um 1.900 (-21%) og á Norðurlandi eystra fækkaði gistinóttum um 200 (-1%).
Skipting milli mánaða
Ef skoðaður er hver mánuður fyrir sig má sjá að fyrir landið í heild sinni fækkar gistinóttum lítillega í janúar (-5%) og febrúar (-1%). Þeim fjölgar hinsvegar í mars um 7% og í apríl um 17% . Í ljós kemur einnig að útlendingum fer fjölgandi á hótelum og gistiheimilum á þessum árstíma en Íslendingum fækkar.
72% aukning hjá útlendingum 6 árum
Frá árinu 1997 hefur gistináttafjöldinn aukist um 42% á þessum fyrstu mánuðum ársins. Á þeim tíma hefur gistinóttum Íslendinga fjölgað um 2% en útlendinga um 72%. Tölur fyrir 2003 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega.