Gistinóttum í apríl fjölgaði um 4% á milli ára
Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta á hótelum í apríl síðastliðnum. Voru þær 80.300 talsins en voru 77.300 í sama mánuði árið 2005, sem er 4% aukning.
Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Austurlandi þar sem gistinætur fóru úr 1.800 í 2.200 milli ára, 25% aukning. Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum úr 5.800 í 6.500, 13% aukning. Á Norðurlandi nam aukningin 10% en gistináttafjöldinn þar fór úr 4.400 í 4.800. Aukningin á höfuðborgarsvæðinu nam 5% en þar fóru gistinæturnar úr 55.600 í 58.300 milli ára. Suðurland var eina landsvæðið þar sem samdráttur varð, en gistinóttum fækkaði þar um 13,5%, úr 9.800 í 8.400.
Fjölgun gistinátta á hótelum í apríl árið 2006 má að öllu leyti rekja til útlendinga. Þeim fjölgaði um 9% en gistinóttum Íslendingum fækkaði um 7%. Gistirými á hótelum í aprílmánuði jókst milli ára, en hótel sem opin voru í apríl síðastliðnum eru þremur fleiri en árið á undan. Fjöldi herbergja fór úr 3.571 í 3.674, 3% aukning og fjöldi rúma úr 7.199 í 7.470, 4% aukning.
Gistinóttum á hótelum janúar - apríl fjölgaði um 8%
Á 1. ársþriðjungi, janúar ? apríl, fjölgaði gistinóttum um 8% frá fyrra ári, en gistináttafjöldinn fór úr 231.500 í 249.200 milli ára. Fjölgun varð á öllum landsvæðum nema Suðurlandi þar sem samdrátturinn mældist 2%. Hlutfallslega varð aukningin mest á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinæturnar fóru úr 16.700 í 23.500 milli ára, 41% aukning. Á Austurlandi nam aukningin 13%, höfuðborgarsvæðinu 6% og Norðurlandi 3%. Fjölgun gistinátta á 1. ársþriðjungi má bæði rekja til Íslendinga og útlendinga. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 11% og gistinóttum útlendinga um 6%. Gistirými jókst einnig á tímabilinu, en herbergjum fjölgaði um 4% og rúmum um 6%.
Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Tölur fyrir 2006 eru bráðabirgðatölur.