Gistinóttum í september fjölgaði um tæp 5%
Gistinætur á hótelum í september síðastliðnum voru 121.400 en voru 116.100 í sama mánuði árið 2006, sem er fjölgun um 5.300 nætur eða tæplega 5%. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.
Gistinóttum fjölgaði eingöngu á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Hlutfallslega varð meiri fjölgun á Suðurlandi þar sem hún nam tæpum 15%, en gistinóttum fjölgaði þar úr 11.600 í 13.400 milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um tæp 8% en þar fór fjöldi gistinátta úr 77.900 í 83.800. Á öðrum landsvæðum fækkaði gistinóttum á hótelum í september milli ára. Samdrátturinn var mestur á Austurlandi en gistinóttum fækkaði úr 5.600 í 4.200, 25%. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða nam fækkun gistinátta tæpum 9% þegar gistinætur fóru úr 10.500 í 9.600 milli ára. Á Norðurlandi var lítil breyting milli ára, eða um 1% samdráttur.
Fjölgun gistinátta á hótelum í september má aðeins rekja til Íslendinga (29%) því gistinóttum útlendinga fækkaði um rúmt 1%. Nánar á vef Hagstofunnar