Göngustígagerð við Dynjanda
Dagana 13. og 14. júní kom saman hópur sjálfboðaliða til að laga göngustíg við fossinn Dynjanda í Arnarfirði. Hópurinn samanstóð af fimm konum frá sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd, þremur au-pair stúlkum frá Hollandi og Þýskalandi og skiptinema frá Belgíu. Umsjón með verkinu var í höndum Hjalta Finnssonar frá Ferðamálaráði Íslands og ferðamálafulltrúa Vestfjarða.
Verkið gekk mjög greiðlega fyrir sig, lögð var möl í um það bil kílómeters leið, og á nokkrum stöðum var lögð steinhleðsla meðfram stígum. Gamlar merkingar voru lagaðar og nýjar settar upp. Nú er leiðin meðfram fossinum orðin mjög aðgengileg og vel þess virði að ganga hana. Leiðin er stutt og tiltölulega auðveld og útsýnið stórfenglegt í allar áttir. Fossinn og umhverfi hans var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981.
Svæðið við Dynjanda er nú vinsæll viðkomustaður ferðamanna og er öll aðstaða þar til fyrirmyndar, klósett og þvottaaðstaða og gott að tjalda. Stutt er yfir á Hrafnseyri, en þar er safn Jóns Sigurðssonar, sem er afar áhugavert. Einnig er upplagt að fara í Selárdalinn í leiðinni og skoða safn Samúels Jónssonar.
Þeir sem eru áhugasamir um að taka þátt í verkefnum sem þessum er bent á að hafa samband við Jóhönnu Jóhannesdóttur, formann sjálfboðaliðasamtaka um náttúruvernd í síma: 567-1669. Fleiri göngustígaverkefni eru á döfinni á Vestfjörðum í byrjun ágúst og veitir ferðamálafulltrúi Vestfjarða upplýsingar í síma: 450-3000. Öllum er velkomin þátttaka.
Grein úr mbl. Sigríður G. Ásgeirsdóttir, Ísafirði 5/7 2000