Græna Reykjavíkurkortið í prentútgáfu
Grænt Reykjavíkurkort er samvinnuverkefni vefsins Náttúran.is, fjölþjóðlega verkefnisins Green Map System, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Tilgangur grænna korta víða um heim er að gera vistvæna kosti á sviði viðskipta, menningar og ferðaþjónustu sýnilegri og aðgengilegri. Græn kort hafa nú verið þróuð í yfir 700 sveitarfélögum, borgum og hverfum í 55 löndum. Ísland er fyrsta landið sem flokkar allt landið eftir Green Map kerfinu.
Í sumar gaf Náttúran.is út aðra prentútgáfa af kortinu en sú fyrri kom út haustið 2010. Kortinu er dreift um alla borgina og á Leifssöð og hefur notið mikilla vinsælda, jafnt meðal íslendinga sjálfra sem og erlendra ferðamanna, segir í tilkynningu. Kortið er bæði á íslensku og ensku. Nýja kortið spannar 31 Green Map flokka og 10 aukaflokka (strætóstoppistöðvar, endurvinnslustöðvar, grenndargámar, hjólastígar o.fl.) og byggir á vefútgáfu Græna Íslandskortsins á Náttúran.is en það er miklu umfangsmeira og tekur fyrir allt Ísland með yfir 3000 skráningum í 100 flokkum. Sjá vefkortið hér: http://www.natturan.is/greenmap/island/.
Green Map er lifandi kerfi og lagar sig að þeirri þróun sem á sér stað í þjóðfélaginu. Það er von útgefanda að græn kort verði með öllu ónauðsynleg innan fárra ára enda verði græn hugsun þá orðin sjálfsögð, ekki undantekning, eins og nú er. En þangað til er öllum frjálst að fá skráningu á Grænt Reykjavíkurkort og Grænt Íslandskort svo framarlega sem að starfsemi viðkomandi uppfylli þau skilyrði og viðmið sem sett eru af Green Map kerfinu.
Grænu Reykjavíkurkorti er dreift ókeypis í Reykjavík en hægt er að fá kortið sent, gegn lágmarks pökkunar- og sendingakostnaði, hvert á land sem er eða út í heim. Pantið hér: http://www.natturan.is/verslun/508/